spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNjarðvíkingar vaknaðir til lífs í úrslitakeppninni

Njarðvíkingar vaknaðir til lífs í úrslitakeppninni

Njarðvík minnkaði muninn í kvöld í einvígi sínu gegn Álftanesi í átta liða úrslitum Bónus deildar karla, 107-74.

Segja má að leikur kvöldsins hafi verið tvískiptur. Þar sem í fyrri hálfleiknum var hann jafn og spennandi, þar sem jafnt var eftir fyrsta leikhluta og Njarðvík leiddi með minnsta mun mögulegum í hálfleik, 49-48.

Seinni hálfleikurinn var svo algjörlega eign heimamanna í Njarðvík. Miðherjinn knái Dominykas Milka fór fyrir sínum mönnum í upphafi þriðja leikhlutans og voru þeir nokkuð snöggir að skapa sér góða forystu. Vinna fjórðunginn 25-7 og leiða því með 19 stigum fyrir lokaleikhlutann.

Með fullri virðingu var eins og Álftnesingar hefðu hreinlega gefist upp við þessa sterku byrjun Njarðvíkur í seinni hálfleiknum. Njarðvík bætti enn í í þeim fjórða og að lokum vinna þeir leikinn gífurlega örugglega, 107-74.

Bestir í liði Njarðvíkur í kvöld voru Dominykas Milka, en hann skilaði 24 stigum, 13 fráköstum, 5 vörðum skotum og Mario Matasovic með 23 stig og 13 fráköst.

Fyrir Álftanes var Justin James með 25 stig og 9 fráköst. Honum næstur var Dimitrios Klonaras með 16 stig og 11 fráköst.

Það er óhætt að segja að sigur Njarðvíkur í kvöld hafi verið glæsilegur. Það var líka eins gott. Eftir tvö erfið töp, eitt heima og það síðasta nokkuð stærra á útivelli voru uppi vangaveltur um hvort þetta lið sem hafði verið frábært í deildarkeppninni væri þegar búið að leggja árar í bát. Sigurinn er þó aðeins einn leikur og þeir þurfa að fara á erfiðan útivöll á Álftanesi í þeim næsta, aftur, til að koma í veg fyrir að verða slegnir út.

Með sigri kvöldsins náði Njarðvík að framlengja einvígið um allavegana einn leik. Þeir þurfa þó enn að vinna næsta til að halda sér á lífi og fá oddaleik heima, en fjórði leikur liðanna fer fram komandi þriðjudag 15. apríl í Kaldalónshöllinni á Álftanesi.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Fréttir
- Auglýsing -