Njarðvík og Keflavík mættust í grannaslag í kvöld. Þétt var setið í Toyota höll þeirra Keflvíkinga en þó er ekki hægt að segja að húsið hafi verið troðið.
Keflvíkingar byrjuðu sterkt og Njarðvíkingar virtust engan veginn tilbúnir í leikinn, þeir töpuðu knettinum klaufalega og Keflavík náði 11-0 forystu í upphafi leiksins. Það var þó Marcus Van sem braut ísinn fyrir Njarðvíkinga og skoraði fyrstu tvö stig þeirra. Grænklæddir minnkuðu muninn í þrjú stig þegar um 3 mínútur voru eftir af 1. leikhluta en Keflvíkingar settu í annað áhlaup og voru með 11 stiga forystu, 25-24 eftir tíu mínútna leik.
Sami gangur var á leiknum í öðrum leikhluta, en Magnús Gunnarsson var bullandi heitur og sallaði 19 stigum á Njarðvíkinga í fyrri hálfleiknum einum og sér. Hálfleikstölur í Keflavík 48-38 heimamönnum í vil og fátt stefndi í spennuþrunginn grannaslag.
Njarðvíkingar komu sterkari inn í seinni hálfleikinn og Njarðvíkingurinn Maciej Baginski lét til sín taka á báðum endum vallarins en hann skoraði 10 stig, tók 2 fráköst og stal einum bolta í þriðja leikhlutanum. Þó svo að Njarðvíkingar hafi unnið þriðja leikhlutann voru þeir ekki nógu sterkir að klára varnir sínar og Keflvíkingar tóku heil 10 sóknarfráköst í þriðja fjórðungnum, en þess má geta að þeir eru með um 5 sóknarfráköst að jafnaði í þriðja leikhluta á tímabilinu. Staðan eftir þriðja leikhlutann var 65-62 Keflavík í vil, sem þýðir að Njarðvík vann þann leikhluta 17-24.
Fjórði leikhlutinn var járn í járn allan tímann en Njarðvíkingar tóku forystuna í fyrsta sinn í leiknum þegar um 5 og hálf mínúta var eftir þegar Nigel Moore setti sniðskot. Þá gerðu Keflvíkingar 7 stiga áhlaup og voru með yfirhöndina þangað til Ágúst Orrason jafnaði leikinn í 77-77 þegar rétttæplega 2 mínútur lifðu leiksins. Marcus Van kom síðan Njarðvík yfir þegar um 30 sekúndur voru eftir þegar hann skoraði úr einu af tveimur vítum og Maciej Baginski gerði það sama þegar 5 sekúndur voru eftir. Njarðvíkingar voru því með 77-79 forystu þegar Keflavík tók boltann inn og Stephen McDowell brunaði upp völlinn. McDowell kastaði boltanum upp í kringum vítalínuna og tryggði Keflvíkingum framlengingu. 79-79 eftir venjulegan leiktíma.
Nigel Moore opnaði framlenginguna með stökkskoti og Ágúst Orrason setti þrist skömmu eftir það og Njarðvík því með 79-84 forystu og stúkan brjáluð Njarðvíkurmegin. Keflvíkingar voru þó ekki lengi að vinna sig aftur inn í leikinn og Snorri Hrafnkelsson jafnaði leikinn í 88-88 þegar 1:20 var eftir af leiknum. Snorri kom Keflvíkingum síðan yfir þegar 53 sekúndur voru eftir með því að hitta úr einu af tveim vítaskotum, 89-88. Þegar Steven McDowell setti tvö víti niður (91-88) og Einar Árni Jóhannsson tók leikhlé virtust Keflvíkingar ætla að taka þetta, en Nigel Moore var bjargvættur grænna og setti risastóran þrist þegar 28 sekúndur lifðu leiksins. B-O-B-A, bomba!
Hinum megin brenndi Stephen McDowell svo af sniðskoti og brotið var á Hirti Einarssyni. Hann fór á línuna, smellti fyrra skotinu svellkaldur og brenndi öllu líkast viljandi á því síðara þar sem einungis þrjár sekúndur voru eftir af leiknum. Leiktíminn rann út og Njarðvíkingar fögnuðu vel og innilega virkilega sætum sigri á grönnunum og erkifjendunum. Lokatölur 91-92.
Nigel Moore var atkvæðamestur grænna með 23 stig og 10 fráköst. Þá var hinn bráðefnilegi Maciej Baginski með 19 stig og 9 fráköst og Elvar Friðriksson gerði 18 stig.
Hjá heimamönnum skoraði Magnús Þór Gunnarsson 25 stig, en eins og fyrr greinir frá komu 19 af þeim í fyrri hálfleik, en á eftir honum kom Darrell Lewis með 20 stig og 14 fráköst.
Keflavík-Njarðvík 91-92 (25-14, 23-24, 17-24, 14-17, 12-13)
Keflavík: Magnús Þór Gunnarsson 25/7 fráköst, Darrel Keith Lewis 20/14 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 12/7 fráköst, Stephen Mc Dowell 12/4 fráköst, Michael Craion 12/13 fráköst, Valur Orri Valsson 8, Andri Daníelsson 2/5 fráköst, Sigurður Vignir Guðmundsson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.
Njarðvík: Nigel Moore 23/10 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 19/9 fráköst, Elvar Már Friðriksson 18/5 fráköst, Marcus Van 16/15 fráköst/4 varin skot, Ágúst Orrason 12, Friðrik E. Stefánsson 3/6 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 1, Óli Ragnar Alexandersson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Ólafur Helgi Jónsson 0, Brynjar Þór Guðnason 0.