Undanúrslit Subway-deildar karla fóru af stað að Hlíðarenda í kvöld! Valsmenn lögðu Hattarmenn að velli í 8 liða úrslitunum 3-1. Deila má um hversu sannfærandi Valsliðið var í þeirri seríu – að vanda spilaði liðið vel varnarlega (fyrir utan leik 2!) en sóknarlega eins og höfuðlaus her á köflum.
Menn hafa afskaplega lítið nefnt Njarðvík og titil í sömu málsgrein þetta tímabilið, Benna Gumm til mikillar gleði og ánægju. En eftir svakalega seríu gegn Þór má nú segja að í einhverjum skilningi séu 25% líkur á því að liðið hirði Íslandsmeistaratitilinn. Geta Njarðvíkingar aukið enn á líkurnar með því að stela fyrsta leiknum í kvöld?
Kúlan: Í Kúlunni birtast þeir félagar Kári og Jeff borgaralega klæddir á bekknum, hnípnir mjög. Grænt slím dropar á þá félaga úr loftinu. Þetta merkir það að ásaskortur Valsmanna bítur nú loks af fullu afli. Af þeim sökum endar leikur kvöldsins með öruggum 74-88 sigri gestanna grænu!
Byrjunarlið
Valur: Tamulis, Kiddi, Hjálmar, Badmus, Kristó
Njarðvík: Chaz, Þorri, Dwayne, Mario, Milka
Gangur leiksins
Kiddi Páls setti fyrstu stigin með fallegu gegnumbroti en gestirnir tóku strax eftir það frumkvæðið og leiddu með nokkrum stigum. Um miðjan leikhlutann stóðu leikar 11-14 og tilfnningin var sú að Njarðvíkingar gætu vel gert aðeins betur varnarlega, t.d. stigið út, og tekið öll völd í leiknum. Það raungerðist síðustu mínútur leikhlutans, gestirnir enduðu hann með 3-10 spretti og leiddu 18-28 eftir einn. Milka setti 10 stig í leikhlutanum og Finnur vafalaust ekki sáttur með orkustigið varnarlega.
Njarðvíkingar voru oft á tíðum mjög þolinmóðir sóknarlega, sóttu ítrekað inn í vörnina og út aftur og komu hreyfingu á Valsvörnina. Eftir eina slíka gullfallega sókn setti Dwayne þrist og setti stöðuna í 28-42. Finni var nóg boðið og smellti í leikhlé. Heimamenn náðu nokkrum stoppum í röð eftir það, keyrðu í bakið á gestunum og minnkuðu muninn í 33-42 og nú var það Benni sem tók leikhlé. Þrátt fyrir það náðu heimamenn nokkrum hröðum sóknum næstu mínútur og minnkuðu muninn í 7 stig, 40-47. Gestirnir enduðu hins vegar fyrri hálfleikinn með 7 stigum í röð, síðustu 3 í formi rýtings frá Super-Mario. 40-54 stóðu leikar í hálfleik.
14 stig er ekkert í körfubolta en gestirnir byrjuðu betur í þriðja leikhluta. Mario raðaði þristum í kvöld og setti stöðuna í 42-61 og skömmu síðar blés Finnur til leikhlés 20 stigum undir, 44-64! Valsarar settu nokkra þrista næstu mínútur, Svalason með einn slíkan og minnkaði muninn í 55-70. Aldrei slíku vant var vörn Hlíðarendapilta hins vegar hriplek og ekki sást högg á vatni. Super-Mario setti enn einn þristinn í blálok leikhlutans, staðan orðin 60-82 og munurinn fram að þessu aldrei meiri í leiknum.
Valsmenn þurftu svo sannarlega á áhlaupi að halda ekki seinna en strax. Þeir áttu fyrstu 4 stig fjórða leikhluta en aldrei kom neitt áhlaup. Maciek gekk nánast frá leiknum eftir að þristur frá honum lak niður úr horninu þegar 6 mínútur voru eftir og enn 22 stiga munur, 67-89. Mínútu síðar var svo gersamlega öll von úti eftir þrist frá Þorra, staðan 69-94. Þorri gladdi svo áhorfendur skömmu síðar með stolnum bolta og hamraði hundraðasta stigið niður með troðslu. Frábær sigur Njarðvíkinga niðurstaðan, lokatölur 84-105.
Menn leiksins
Dwayne Lautier-Ogunleye hefur heldur betur vakið vaxandi athygli og í kvöld átti hann frábæran leik, setti 24 stig, tók 7 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Einnig spilaði hann áberandi vel varnarlega, t.d. gegn Badmus. Allt byrjunarlið Njarðvíkinga setti yfir 10 stig í kvöld og 20 stig komu af bekknum. Allt að því draumaframmistaða liðsins.
Kristófer var atkvæðamestur heimamanna með 19 stig og 9 fráköst.
Kjarninn
Staðan er vissulega bara 0-1 í einvíginu en undirritaður er svo barnalegur að hann sér enga von fyrir Valsmenn. Sem betur fer fyrir Valsara er Finnur Freyr þjálfari liðsins en ekki undirritaður og hann og hans leikmenn munu ekki leggja árar í bát. Leikur 2 í Ljónagryfjunni gæti orðið svakalegur. Deildarmeistararnir mæta nánast með bakið upp við vegg og þurfa fyrst og fremst að taka Valsvörnina með suður með sjó. Vörnin hefur verið þeirra lykill að sigrum á tímabilinu.
Njarðvíkingar hafa nú komið sér í kjörstöðu með þessum frábæra sigri í kvöld. Benedikt Guðmundsson hefur marga fjöruna sopið í þessum bransa og var augljóslega með báða fætur á jörðinni í viðtali eftir leik. Enn þurfa Njarðvíkingar að sigra 2 leiki. Benni benti á að leikur 2 í Njarðvík er einfaldlega risastór, tap hendir þessum sigri í kvöld beint í ruslatunnuna.
Myndasafn (væntanlegt)