spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar öryggið uppmálað á Króknum

Njarðvíkingar öryggið uppmálað á Króknum

 
Njarðvík, eitt af þremur toppliðum deildarinnar mætti á Krókinn í gærkvöld. Þeir eru taldir sterkasta lið deildarinnar í dag eftir komu Nick Bradford. Það mátti því búast við erfiðum leik fyrir Tindastól sem kom reyndar á daginn. Kenney Boyd, nýji miðherji Tindastóls byrjaði á bekknum í kvöld, en Axel, Friðrik, Svavar, Helgi Rafn og Michael byrjuðu inná. Nick Bradford var hinsvegar í byrjunarliði Njarðvíkinga ásamt Friðriki, Guðmundi, Magnúsi og Jóhanni.
Njarðvík skoraði fyrstu fjögur stig leiksins og breyttu síðan stöðunni úr 4 – 6 í 4 – 15. Stólarnir vöknuðu þá og náðu að saxa á muninn jafnt og þétt. Þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta var staðan 16 – 18. Gestirnir áttu hinsvegar þrjár síðustu körfunar í fjórðungnum og þar af eina þriggja stiga. Staðan orðin 16 – 25.
 
Þessi munur hélst út mest allan fyrri hálfleik. Hann var í kringum 10 stigin allan leikhlutann, en eins og í fyrsta fjórðungi áttu Njarðvíkingar síðustu körfur fyrri hálfleiks og náðu muninum í 15 stig. Staðan í hálfleik 39 – 54. Gestirnir virkuðu betri liðið í fyrri hálfleik eins og staðan gaf til kynna og höfðu minna fyrir sínum stigum en Stólarnir. Ef heimamenn áttu að geta strítt Njarðvík þurftu þeir að bæta vörnina enda of mikið að fá á sig 54 stig í fyrri hálfleik.
 
Sú von fór svo í upphafi síðari hálfleiks þegar Njarðvíkingar skoruðu 5 – 13 á Stólana og bilið orðið 23 stig og Tindastóll var eftir þetta aldrei líklegir til að stríða gestunum að ráði. Þeir reyndu þó út leikinn og börðust vel, en Njarðvíkingar voru einfaldlega nokkrum númerum of stórir að þessu sinni. Munurinn fór einu sinni í 30 stig í stöðunni 50 – 80, en annars var hann um 25 stigin. Að lokum vann Njarðvík 26 stiga sigur, 80 – 106.
 
Stigahæstur þeirra var Jóhann Ólafsson með 18 stig, en næstir komu Friðrik með 15 stig og Nick með 14. Þeir dreifðu spilatíma vel á alla sína leikmenn og áttu Hjörtur og Rúnar fínar innkomur og skiluðu 20 stigum saman. Allir leikmenn Njarðvíkur komust á blað. Hjá Tindastóli var Michael Giovacchini sprækastur með 19 stig og 6 stoðsendingar, næstur honum var Kenney Boyd með 16 stig. Hann var sterkur í teignum, en formleysi háði honum. Þá var Axel með 10 stig. Aðrir náðu sér ekki á strik í leiknum og var Svavar til að mynda aðeins með 9 stig að þessu sinni.
 
Karl Tindastólsþjálfari hafði þetta að segja þegar hann var spurður út í leikinn:
“Við vorum að spila gegn besta liði landsins um þessar mundir, í því eru margir landsliðsmenn og þeir hafa nú fengið einn litríkasta kanann sem spilað hefur hér á Íslandi. Hann veit nákvæmlega til hvers er ætlast af honum og hér þekkir hann allar aðstæður. Það var margt jákvætt í leik okkar, við lögðum upp með að hleypa þeim ekki í einhverja skotsýningu að utan og við náðum framan af leik að halda okkur á pari við planið okkar. Við misstum þá hins vegar of langt fram úr okkur undir lok fyrri hálfleiks og vorum klaufar að gera það. Auk þess misstum við lykilmenn í villuvandræði sem hafði vissulega áhrif á okkar leik. En við ætlum okkur að taka það jákvæða úr þessum leik með okkur í leikinn á móti Grindvíkingum á sunnudaginn í bikarnum og halda áfram að bæta okkur.”
 
Stigaskor Tindastóls: Michael 19, Kenney 16, Axel 10, Friðrik 9, Svavar 9, Helgi Freyr 8, Helgi Rafn 6 og Sigmar Logi 3.
 
Njarðvík: Jóhann Árni 18, Friðrik 15, Nick 14, Hjörtur 12, Guðmundur 10, Rúnar 8, Kristján 6, Páll 6, Grétar 5, Magnús 5, Egill 4 og Elías 3.
 
Dómarar voru þeir Björgvin Rúnarsson og Halldór Geir Jensson. Þeir áttu tiltölulega náðugt kvöld þótt þeir næðu 53 villum.
 
Áhorfendur: 232.
 
 
Texti: Jóhann Sigmarsson.
Fréttir
- Auglýsing -