Njarðvíkingar mættu ÍR í kvöld í subwaydeild karla í fyrsta liðanna í seinni umferð deildarinnar. Heimamenn í Ljónagryfjunni áttu harma að hefna eftir tap gegn ÍR í fyrstu umferð mótsins. 103:74 varð niðurstaða kvöldsins og óhætt að segja að hefndin hafi verið fullkomnuð hjá Njarðvík gegn lánlausum Breiðhyltingum.
Langt frameftir leik voru ÍR svo sem aldrei langt undan og frábær kafli þeirra í upphafi seinni hálfleiks kom leiknum niður í einhver tveggja stiga mun. En eftir það tóku Njarðvíkingar öll völd á vellinum og litu aldrei tilbaka. Góð leið til að fagna nýju ári fyrir þá Njarðvíkinga sem í kvöld voru enn án Hauks Helga Pálssonar og Nico Richotti sem báðir hafa verið á sjúkralistanum fræga. Benedikt Guðmundsson þjálfari liðsins sagði þó að hann vonaðist til þess að sjá Hauk fljótlega á gólfinu en kappinn í það minnsta hitaði upp þetta kvöldið.
Það var erfitt að rýna í taktík liðanna þetta kvöldið. Leikurinn svo sem flaut bara einhvernvegin þannig að maður bjóst bara við heimasigri. Mögulega fyrir utan þennan kafla í seinni hálfleik hjá ÍR þegar þeir áttu sitt áhlaup. Einhvernveginn finnst manni þetta ÍR lið eiga töluvert meira inni en þeir sýndu í kvöld. 30 stiga tap í Njarðvík finnst manni ekki segja alla söguna um liðið. Þetta kvöldið börðust þeir vel þangað til að þeir fengu þungt högg í síðuna í þriðja leikhluta og náðu sér aldrei eftir það.
Njarðvíkingar eru á ágætis siglingu og eftir að hafa sigrað granna sína í síðasta leiknum á síðasta ári þá var ákveðið verkefni að gíra sig upp fyrir þennan leik. Þeir hefðu að öllu óbreyttu átt að vera með óbragð í munni eftir fyrri leik liðanna í deildinni þar sem ÍR hreinlega niðurlægðu þá grænklæddu. Njarðvíkingar spiluðu bara sinn grimma sóknarbolta, voru að hitta prýðilega vel og svo átti Dedrick Basile enn einn fanta góða leikinn þegar hann skilaði 30 stigum. Lisandro Rasio átti sinn besta leik í Njarðvíkurbúning þegar hann skoraði 20 stig og tók 12 fráköst. Kappinn virðist vera að finna taktinn og sitt hlutverk í liðinu hægt og bítandi. Margir hverjir þurfa að éta sokk sinn (þar á meðal undirritaður) hvað þennan pilt varðar en ekki er hægt að sakast við að hann gefi ekki allt sitt í leikina þegar hann kemur á gólfið.
Taylor Johns skilaði tröllatvennu fyrir ÍR með 26 stig og 16 fráköst og var þeirra allra bestur í kvöld með þó nokkur troðslu tilþrif en slíkt dugði skammt.