Þórsarar mega teljast heppnir að hafa ekki klúðrað því sem virtist vera nokkuð öruggur sigur í Njarðvík í kvöld þegar þeir heimsóttu þá grænklæddu í Ljónagryfjuna. Á loka sekúndum leiksins var það Ágúst Orrason sem var í prýðisfæri til að klára leikinn fyrir Njarðvíkinga en honum brást skotlistin og Þórsarar önduðu léttar og fóru heim með 83:84 sigur austur til Þorlákshafnar.
Það var nákvæmlega ekkert sem benti til þess að Njarðvíkingar myndu eiga nokkra möguleika í Þórsara þetta kvöldið. Í fyrri hálfleik réðu gestirnir lögum og lofum um allan völlinn og Benjamin Curtis Smith lék varnarleik (ef varnarleik má kalla) Njarðvíkinga afar grátt. Strax í fyrri hálfleik hafði Smith sett í 17 stig fyrir Þór og gestirnir yfir með 13 stigum, 36:49. Leikurinn var að að mestu alger eign gestanna. Þeir léku fast á Njarðvíkinga og ýttu þeim bókstaflega út úr öllum sínum aðgerðum. Fyrir vikið urðu menn hikandi og sjálfstraustið nákvæmlega ekki neitt. Það var svo sem ekkert það að Þórsarar voru að leika svona glimrandi góðan bolta. Þeir einfaldlega voru töluvert sprækar og sterkari fyrir í öllum sínum hreyfingum.
Það var ekki fyrr en undir lok fjórða leikhluta að Njarðvíkingar settu smá hjarta í leikinn og hófu áhlaup að forskoti Þórsara með Nigel Moore í fararbroddi. Nigel sem hingað til hefur farið afar sparlega með það að keyra upp að körfu andstæðinga sinna hóf árás. Sú árás skilaði honum hverju stiginu á fætur öðru í formi sniðskots eða þá af vítalínunni. Þetta skilaði einnig Njarðvíkingum aftur inn í leikinn og allt í einu var staðan jöfn þegar um 20 sekúndur voru eftir af leiknum. En títt nefndur Benjamin Smith keyrði að körfu Njarðvíkinga sem brutu á honum (vafasamur dómur fannst þó mörgum) og Smith setti niður annað vítið og 3 sekúndur eftir á klukkunni. Það hefði nú aldeilis átt að vera feiki nóg og sem fyrr segir var það hársbreidd frá því að vera nóg en Ágúst Orrason brást á ögur stundu og Þórsarar fóru með sigur.
Heppni stimpill á þessu hjá Þór sem hefðu átt að vera löngu búnir að klára þennan leik en skorti þennan loka hnikk til að drepa niður Njarðvíkinga. Vissulega fá Njarðvíkingar prik fyrir að koma tilbaka og gera sér mat úr þeirri hörmung sem höfðu sýnt sínum stuðningsmönnum heilar 30 mínútur af leiknum. En undirritaður vill meina að þessi leikur hafi tapast löngu áður en þessar lokamínútur gengu í garð. Fram að því voru leikmenn Njarðvíkinga með hangandi haus og einfaldlega linir. Vissulega er þetta ungur hópur hjá Njarðvíkingum en þessir piltar geta ekki endalaust falið sig bakvið fæðingarár sitt. Það eru engin aldurstakmörk á því að berjast fyrir sínu og mæta tilbúin til leiks. Þarna eru ungir piltar að fá einstakt tækifæri í deild þeirra bestu og ef miðað er við frammistöðu kvöldsins þá virðast þeir ekki hafa neinn áhuga á því að nýta sér það tækifæri.
Viðtöl birtast á Karfan TV seinna í kvöld.