ÍR og Njarðvík mættust í kvöld í mjög mikilvægum leik fyrir bæði lið. Njarðvíkingar þurftu að sigra til að komast upp úr fallsæti á meðan að ÍR-ingar áttu enn séns á að læðast inn í úrslitakeppnina ef þeir ynnu leikinn. Það var því til mikils að vinna í kvöld fyrir bæði lið og von á hörkuleik. Leikurinn var upp og niður allan tímann og einkenndist af góðum sóknum en oft slökum vörnum. Svo fór að lokum að Njarðvík hafði betur, 99-106.
Fyrir leikinn var Colin Pryor úti fyrir ÍR-inga, en hann fékk Covid-bólusetninguna sín í gær og því eilítið slappur. Hjá Njarðvík var voru helstu póstar heilir og liðið ætlaði sér augljóslega að leggja allt í sölurnar í kvöld.
Gangur leiksins
Njarðvíkingar létu strax finna fyrir sér með sterkri frákastabaráttu á sínum sóknarhelmingi og Antonio Hester var illviðráðanlegur framan af. ÍR-ingar voru hins vegar að hitta mjög vel úr þriggja stiga skotum sínum og fyrsti leikhlutinn var hnífjafn mest allan tímann. Heimamenn tóku sér þó tveggja stiga forystu með þriggja stiga flautukörfu frá Evan Singletary svo staðan var 24-22.
Í öðrum leikhlutanum settu gestirnir grænklæddu hausinn undir sig og lokuðu vel á ÍR-inga. Eftir fimm mínútur höfðu Njarðvíkingar tekið 24-10 áhlaup á Breiðhyltinga svo staðan var 34-46 fyrir Njarðvík. Þá tóku atvinnumenn ÍR sig til og löguðu stöðuna allhressilega. Evan Singletary og Everage Richardson skoruðu samtals 12 stig á þremur mínútum gegn aðeins 4 stigum hjá Njarðvík. Gestirnir úr Reykjanesbæ gátu hins vegar haldið ÍR frá sér með ágætum lokamínútum og staðan í hálfleik var því 48-57 fyrir Njarðvík.
Njarðvík hóf seinni hálfleikinn betur og leiddu með 14 stigum eftir nokkrar mínútur. Zvonko Buljan, miðherji ÍR, fór þá loksins í gang, en hann hafði ekki skorað fyrstu 22 mínútur leiksins. Zvonko skoraði 11 stig í 28-12 áhlaupi ÍR næstu mínúturunar og þá tók Singletary við með sín eigin 11 stig sömuleiðis! Skyndilega voru ÍR-ingar komnir aftur með forystu þegar aðeins lokafjórðungurinn var eftir, 80-78!
Lokaleikhlutinn varð mjög spennandi og bæði lið náðu nokkurra körfu forystu á einhverjum tímapunkti í honum. Undir lokin höfðu Njarðvíkingar yfirhöndina en ÍR ætlaði aldeilis ekki að hætta. Að lokum urðu þeir þó að sætta sig við ósigur gegn Njarðvík. Leiknum lauk á vítalínunni þar sem gestirnir náðu sér í 7 vítaskot á síðustu mínútunni til að koma lokastöðunni í 99-106.
Lykillinn
Antonio Hester var óstöðvandi á löngum köflum í leiknum og setti m.a. eina mikilvægustu körfuna í leiknum til að tryggja Njarðvík sigurinn. Hester lauk leik með 27 stig, 8 fráköst, 6 fiskaðar villur og 80% skotnýtingu. Logi Gunnarsson, herra Njarðvík sjálfur, var líka frábær með 20 stig og 64% skotnýting (þ.a. 4/7 í þristum).
Hjá ÍR var Evan Singletary bestur með 30 stig, 10 stoðsendingar og sjö fiskaðar villur.
Tölfræðin lýgur ekki
Njarðvíkingar náðu að halda ÍR-ingum frá vítalínunni í leiknum, sem reyndist vera mjög mikilvægt. Þeir höfðu líka gert þetta gegn Þór Akureyri í seinustu umferð.
ÍR tók aðeins 9 vítaskot í leiknum gegn 24 slíkum hjá Njarðvík. Jafnvel þó bónus-vítaskot séu tekin með í reikninginn (7 vítaskot á seinustu sekúndum leiksins) þá tóku Njarðvíkingar samt nærri því tvöfalt fleiri víti en ÍR. Á móti Þór Akureyri tóku þeir einmitt 17 vítaskot gegn aðeins 6 hjá Akureyringum.
Í leik sem er svona naumur skipta vítaskotin máli.
Kjarninn
Njarðvíkingar hafa með þessu næstum því tryggt það að þeir haldi sér uppi í deild þeirra bestu. Eins og þjálfari þeirra, Einar Árni Jóhannsson, sagði eftir leik þá vannst þessi á hjartanu. Mjög mikilvægur sigur. Njarðvík tryggir sig upp í Dominosdeild karla að ári með sigri í seinasta leik tímabilsins í næstu umferð en þeim dugar að Höttur vinni ekki lokaleikinn sinn á móti Keflavík.
ÍR-ingar eiga núna aðeins minni séns á að ná inn í úrslitakeppnina, en þeir eru núna að elta bæði Njarðvík og Þór Akureyri fyrir áttunda sætið í úrslitakeppninni. Ljóst er að ÍR fellur ekki þó að þeir tapi í seinustu umferð gegn KR.