spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNjarðvíkingar höfðu Val á seiglunni

Njarðvíkingar höfðu Val á seiglunni

Njarðvík landaði tveimur mikilvægum stigum með 86-76 sigri á Val eftir framlengdan leik. Illugi Steingrímsson kom leiknum í framlengingu fyrir Val en Njarðvíkingar voru talsvert sterkari í framlengingunni og höfðu að lokum sigur í barningsleik.

Valsmenn leiddu 10-11 að loknum fyrsta leikhluta sem var ekki mikið fyrir augað. Fínar varnir en mönnum nokkuð mislagðar hendur á sóknarendanum. Heimamenn 0-7 í þristum og gestirnir 0-6.

Snöggtum meira var skorað í öðrum leikhluta en þó áfram fremur stirt yfir liðunum og gestirnir að gera sérlega vel að loka á heimamenn í Njarðvík í þeirra sóknaraðgerðum. Heimamenn jöfnuðu þó metin og staðan 29-29 í hálfleik sem er áframhaldandi vottur um slaginn varnarmegin og dræma skotnýtingu beggja liða.

Chaz Williams var stigahæstur hjá Njarðvík með 8 stig í hálfleik og 3 stoðsendingar en hjá Valsmönnum var Naor Sharabani stigahæstur með 11 stig og 2 stoðsendingar.

Njarðvíkingar sköpuðu sér smá andrými í þriðja leikhluta, Mario Matasovic fann fjölina og var kominn með 21 stig og heimamenn leiddu 58-49 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Valsmenn opnuðu fjórða leikhluta með 5-0 skvettu og minnkuðu muninn í 58-54. Þegar fjórar mínútur lifðu leiks tókst gestunum að jafna 62-62 þegar Illugi Auðunsson blakaði boltanum ofaní eftir sóknarfrákast. Í stöðunni 66-65 mætti Chaz Williams með svakalega þrist og kom Njarðvík 69-65 þegar 57 sek. lifðu leiks. Frank Aron Booker svaraði í sömu mynt strax í næstu sókn og staðan 69-68 með 49 sekúndur eftir af leiknum.

Naor Sharabani freistaði þess að koma Val yfir þegar innan við 5 sekúndur lifðu leiks en skotið vildi ekki niður og gestirnir brutu á Chaz Williams sem missti fyrra vítið en setti það síðara og munurinn 70-68 þegar 4,5 sekúndur voru eftir af leiknum. Valsmenn tóku leikhlé og Illugi Steingrímsson fékk skot í Njarðvíkurteignum og jafnaði metin 70-70 þegar 1,8 sekúnda lifði leiks og nú var röðin komin að heimamönnum að taka tíma og stilla upp lokaskotinu.

Chaz Williams fékk boltann og galopið skot eftir góða fléttu en boltinn vildi ekki niður og því varð að framlengja leikinn í stöðunni 70-70.

Mario Matasovic opnaði framlenginguna með þrist og kom Njarðvíkingum í 73-70 og heimamenn gerðu sjö fyrstu stig framlengingarinnar og leiddu 77-70 þegar 1.54 mín voru eftir. Öflug byrjun heimamanna á framlengingunni dugði til sigurs þar sem lokatölur reyndust 86-76. Hörku slagur þar sem Valsmenn velgdu Njarðvíkingum vel undir uggum en áttu ekki bensín á tanknum

Mario Matasovic var með tröllatvennu í Njarðvíkurliðinu í kvöld með 24 stig og 21 frákast en næstur honum var Chaz Williams með 22 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar. Hjá Valsmönnum varð Naor Sharabani atkvæðamestur með 19 stig og 6 fráköst.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Jón Björn

Fréttir
- Auglýsing -