11:06
{mosimage}
Fjórir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld þegar 20. umferðin fer af stað. Takist Njarðvíkingum að leggja Fjölni í Grafarvogi verða þeir deildarmeistarar í fyrsta sinn síðan árið 2001. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15.
Stórleikur verður í Hólminum þegar Snæfell tekur á móti Grindavík. Bæði lið eru örugg inn í úrslitakeppnina en Grindvíkingar geta enn náð Keflvíkingum að stigum en Keflavík er í 5. sæti deildarinnar með 22 stig en Grindavík í 6. sæti með 20 stig.
Í Keflavík mæta Tindastólsmenn í heimsókn og leika Keflvíkingar án Arnars Freys Jónssonar sem meiddist á dögunum. Stólarnir eiga enn möguleika á því að komast í úrslitakeppnina en þeir hafa jafn mörg stig og Hamar/Selfoss sem er í 8. sæti deildarinnar.
Í Borgarnesi mætast Skallagrímur og Þór Þorlákshöfn og með sigri getur Þór komið sér enn fjær fallbaráttunni en það er hvorki létt né löðurmannlegt verk að sækja stig í vasa Vals Ingimundarsonar.
Njarðvíkingar heimsækja Fjölni í Grafarvog en Fjölnismenn eru á botni deildarinnar með Haukum og hafa bæði lið 8 stig.