spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNjarðvík valtaði yfir Blika í síðari hálfleik

Njarðvík valtaði yfir Blika í síðari hálfleik

Njarðvík burstaði Breiðablik með 40 stiga mun í Ljónagryfjunni í kvöld. Lokatölur 135-95. Eftir hraðan og skemmtilegan fyrri hálfleik þar sem jafnt var á öllum tölum þá stungu Njarðvíkingar af í síðari hálfleik og fóru á kostum.

Blikar mættu galvaskir í Ljónagryfjuna og byrjuðu 0-11. Heimamenn rönkuðu þó við sér á endanum og jöfnuðu metin 15-15 með þrist frá Nacho. Egill Viginsson kom Blikum svo í 29-30 með flautuþrist um leið og fyrsta leikhluta lauk. Fjörugur opnunarleikhluti þar sem Mario Matasovic var með 13 stig í liði Njarðvíkinga en Danero með 9 stig hjá Blikum og stórhættulegur fyrir utan þriggja sem fyrr.

Annar leikhluti var jafnvel fjörugri en sá fyrri. Nacho fór að taka til sinna mála í liði Njarðvíkinga sem náðu undirhöndinni og leiddu 67-57 eftir fyrstu 20 mínútur leiksins. Blikar komnir með 30 þriggja stiga tilraunir í fyrri hálfleik og til alls líklegir. Everage frábær í fyrri fyrir Blika með 18 stig, Danero 11 og Jermey 10 en hjá Njarðvíkingum var Mario með 16 stig og Nacho kom sterkur inn í annan leikhluta og valr með 15 stig í hálfleik.

Nacho-time

Blikar fóru vel af stað í þriðja, minnkuðu muninn í 74-70 en eftir það kipptu Njarðvíkingar undan þeim fótunum. Nacho fór hamförum, skellti í tvo þrista í röð fyrir Ljónin og breytti stöðunni fljótlega í 86-70 og til að nudda salti í sárin mætti Mario strax þar á eftir með „settu aftur ofaní troðslu“ (e. put back dunk) og staðan 88-70. Þarna fór leikurinn endanlega fyrir Blika og Njarðvíkingar skildu þá eftir í reyk. Eftir þrjá leikhluta var staðan svo orðin 103-79 og munurinn átti bara eftir að aukast.

Í fjórða leikhluta var það helst að frétta að Lisandro Rasio átti rosalega troðslu og Jan Baginski kom inn á ferskur eftir langvarandi meiðsli og skilaði flottum fimm mínútum í kvöld með 3 stig, 2 fráköst og 3 stoðsendingar. Lokatölur 135-95 eins og áður greinir.

Julio De Assis lék ekki með Blikum í kvöld en hann er að taka tæp 8 fráköst að jafnaði í leik fyrir Kópavogsliðið. Hans fjarvera var fremur áþreifanleg þar sem Mario, Nacho og Lisandro léku oft lausum hala í námunda við körfuna.

Blikar skutu 30 þristum í fyrri hálfleik. Þeir eiga metið í deildinni með flestar þriggja stiga tilraunir í leik eða 59 talsins í 136-133 sigri gegn KR í októbermánuði 2022. Þeir hjuggu nærri metinu í kvöld með 58 þriggja stiga skottilraunir.

Fyrir leikinn í kvöld hafði Njarðvík skorað mest 119 stig í deildinni en það var í 88-119 útisigri gegn Þór Þorlákshöfn. Ljónin settu því nýtt eigið stigamet á vertíðinni með því að skora 135 í Ljónagryfjunni í kvöld.

Þegar þetta er ritað er Njarðvík eitt á toppi deildarinnar með 26 stig en núna er leikur Vals og KR að hefjast þar sem Valur getur jafnað Njarðvík á toppnum. Þriðja toppliðið, Keflavík, mætir svo Þór Þorlákshöfn í Blue-höllinni annað kvöld í lokaleik umferðarinnar.

Nú tekur við landsleikjahlé en að því loknu þá mætast Haukar og Njarðvík í afar athyglisverðum slag í Ólafssal og Blikar fá Tindastól í heimsókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)

Fréttir
- Auglýsing -