spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNjarðvík tók forystuna í Ljónagryfjunni

Njarðvík tók forystuna í Ljónagryfjunni

Njarðvík tók 1-0 forystu gegn KR í 8-liða úrslitum Subwaydeildar karla í kvöld. Lokatölur 99-90 þar sem Fotis gerði 28 stig og tók 8 fráköst fyrir heimamenn og Lindbom með huggulega tvennu fyrir KR 26 stig og 12 fráköst. Leikur tvö verður í DHL-Höllinni þann 9. apríl næstkomandi kl. 20:15.

Það helsta

Mario Matasovic mætti klár, hakkaði niður einu alley-up og svo þrist í næstu sókn og það líkaði Ljónahjörðinni. Heimamenn byrjuðu 13-5 áður en KR-ingar tóku við sér og náðu að minnka muninn í 21-17 þegar fyrsta leikhluta lauk. Dedrick var 2-3 í þristum og með 8 stig fyrir Njarðvík eftir fyrsta en Lindbom 10 hjá KR. Vörn gestanna í fyrri hálfleik var á heimsmælikvarða í einhverjum bókum, léku villulaust en slíkir leikhlutar eru fáséðir en bregður þó fyrir við og við.

Fotis og Lindbom voru áfram að skiptast á rispum í öðrum leikhluta en Njarðvíkingar héldu alltaf örlitlu forskoti. Staðan 48-40 í hálfleik þar sem Fotis var með 13 og Mario 10 en Lindbom 15 og Darbo 13 hjá KR. Gestirnir voru óhræddir að láta vaða fyrir utan með 20 þriggja stiga tilraunir í hálfleik.

Snemma í þriðja fékk Basile sína fjórðu villu þegar hann braut á sóknarmanni KR og í kjölfarið fékk hann T-villu eftir samskipti sín við dómara leiksins. Mönnum varð nokkuð heitt í hamsi í kvöld frá báðum hliðum í garð dómara. KR gekk á lagið og skoraði 28 stig í leikhlutanum og komust m.a. yfir 54-56 en heimamenn tóku forystuna á nýjan leik þegar fyrirliðinn Logi Gunnarsson setti „trademark“ þrist í horninu og kom Njarðvík 73-68.

Framan af fjórða var KR ekki langt undan en leikurinn hljóp frá þeim nokkuð endanlega þegar Haukur Helgi Briem Pálsson skellti niður þrist og kom heimamönnum í 89-79. Eftir þetta varð vonin veik hjá KR sem þó hættu ekki að berjast og lokatölur 99-90 eins og áður greinir. Leikurinn í kvöld ætti að gefa góð fyrirheit fyrir laugardaginn þegar serían færist yfir í Vesturbæinn.

Bestu menn

Fotis Lampropoulos fór fyrir Njarðvíkingum með 28 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar og Dedrick Basile bætti við 18 stigum og 8 stoðsendingum. Hjá KR var Carl Lindbom með 26 stig og 12 fráköst og Adama Darbo bætti við 25 stigum og 9 stoðsendingum. Þá var Þorvaldur Orri Árnason einnig virkilega öflugur hjá KR með 9 stig og 10 fráköst. Sömuleiðis var Nico Richotti flottur hjá Njarðvík með 14 stig, 10 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

Njarðvík fullmannaðir á ný

Haukur Helgi Briem Pálsson var mættur aftur inn í lið Njarðvíkinga og byrjaði í kvöld. Haukur lék rúmar 27 mínútur í kvöld og skoraði 14 stig, tók 2 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)

Fréttir
- Auglýsing -