Njarðvík er komið í undanúrslit Bónusdeildar kvenna eftir 95-89 sigur á Stjörnunni í kvöld. Þar með vann Njarðvík einvígið 3-0 en allir þrír leikirnir voru góð skák og Stjörnukonur létu bikarmeistara Njarðvíkur hafa vel fyrir sigrinum. Þríeykið Dinkins, Hersler og Hesseldal leiddu Njarðvíkinga í kvöld en Diljá Ögn var fremst í flokki gestanna.
Brittany Dinkins var sjóðandi á upphafsmínútum leiksins. Gerði 20 stig í fyrsta leikhluta og heimakonur í Njarðvík leiddu 29-18 að honum loknum. Dinkins lokaði leikhlutanum með flautuþrist í horninu og meðbyrinn allur Njarðvíkurmegin. Hjá Stjörnunni var Berglind Katla að koma skemmtilega inn af bekknum og leggja í stigapúkkið hjá gestunum en hér fer bráðefnilegur leikmaður sem þið eigið vafalítið eftir að heyra meira af.
Flautukarfa Dinkins í fyrsta virtist meltast vel hjá Ljónynjum sem í upphafi annars leikhluta komust í 39-21 en þá var Garðbæingum nóg boðið! Stjörnukonur náðu að minnka forystuna úr 18 stigum niður í 5 og staðan 52-47 í hálfleik. Dinkins stigahæst heimaveknna með 26 stig í leikhléi en Diljá Ögn með 11 hjá Stjörnunni.
Njarðvík var áfram með forystuna í þriðja leikhluta. Dinkins kom bikarmeisturunum í 61-51 með þrist og Krista Gló setti annan skömmu síðar og kom Njarðvík 64-55. Stjarnan lét áhlaupin ekki verða of stór og staðan 71-66 eftir þriðja leikhluta. Diljá beittust Stjörnumegin og aðeins spurning hvort Garðbæingar næðu að finna þetta „auka “til að jafna eða komast yfir í fjórða eða hvort Njarðvíkingar myndu ríghalda í stýrið á leiknum.
Snemma í fjórða náði Stjarnan að minnka muninn í 74-72 þegar Katarzyna setti niður þrist en Njarðvík sleit sig aftur fjarri. Í tvígang í brakinu náði Stjarnan að skora og fá víti að auki þar sem Denia og Diljá voru að verki en öllum tilbrigðum við að jafna metin var jafnan svarað af Njarðvíkingum sem að lokum höfðu 95-89 sigur í rimmunni og eru þar með komnar í undanúrslit.
Dinkins lauk leik með 35 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar, Pauline með 17 stig og 9 fráköst og Hesseldal með 13 stig og 16 fráköst. Hjá Stjörnunni var Diljá Ögn með 25 stig og 3 stoðsendingar og Katarzyna með 18 stig.
Þar með eru Garðbæingar komnir í sumarfrí í Bónusdeild kvenna en Njarðvíkingar halda áfram og það skýrist á næstunni hverjir andstæðingar þeirra verða en bæði Njarðvík og Keflavík eru komin áfram en líf er enn í rimmum Þórs og Vals og svo Hauka og Grindavíkur.