Njarðvík valtaði yfir KR í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Subwaydeildar karla í kvöld. Lokatölur 91-63 og serían 3-0. Í fyrsta sinn síðan árið 2006 er Njarðvík að vinna sigur á KR í úrslitakeppni karla. Fotis var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld með flotta tvennu, 20 stig og 10 fráköst en Þorvaldur Orri með 14 stig og 6 fráköst í liði KR.
Njarðvíkingar leiddu 25-14 að loknum fyrsta leikhluta þar sem gestirnir úr Vesturbænum voru lítið að tengja skotin sín, 1-8 í þristum eftir fyrstu 10 mínúturnar. Fotis með 7 hjá Njarðvík en Þorvaldur 6 í liði KR.
Hnífurinn var beittari hjá KR í öðrum leikhluta sem þeir unnu 20-22 og því leiddu heimamenn 45-36 í hálfleik. Skotnýting heimamanna fyrir utan var hinsvegar athyglisverð, 6-8 í þristum og Fotis með 11 stig og 9 fráköst í hálfleik en hjá KR var Þorvaldur enn atkvæðamestur með 10 stig.
Ljónin komu sterk inn í síðari hálfleik með Dedrick Basile fremstan í flokki sem gerði 12 stig í leikhlutanum og stýrði Njarðvíkingum eins og herforingi. Njarðvík vann leikhlutann 21-13 og leiddu 66-49 fyrir fjórða og síðasta hluta. Hér voru engin merki á KR um að þeir ættu afturkvæmt inn í þennan leik.
Í fjórða leikhluta var aldrei spurning hvert þessi sería færi og Njarðvík kláraði verkið 91-63 og þar með seríuna 3-0. Njarðvíkingar halda því áfram inn í undanúrslit á meðan KR-ingar eru komnir í sumarfrí.
Maciej Baginski og Elías Bjarki Pálsson léku ekki með Njarðvík í kvöld þar sem þeir voru báðir með flensu en verða báðir mættir aftur í búning von bráðar.