Njarðvíkingar bitu hressilega frá sér í Ljónagryfjunni í kvöld þegar þeir minnkuðu muninn í 1-2 í undanúrslitaseríunni gegn Tindastól. Lokatölur í Njarðvík 109-78 þar sem heimamenn léku á als oddi í kvöld. Það verður því leikur fjögur í Síkinu á Laugardag.
Sigur Njarðvíkinga var ekki endurgjaldslaus því Lisandro Rasio var rekinn út úr húsi eftir að hafa fengið dæmdar á sig tvær tæknivillur. Reglum samkvæmt mega Njarðvíkingar búast við því að leika án Rasio í Síkinu á laugardag.
Í stuttu málin settu heimamenn tóninn snemma, komust í 17-1 og litu í raun aldrei til baka eftir það. Langþráð frammistaða hjá heimamönnum þar sem Haukur Helgi Pálsson fór fyrir Ljónahjörðinni á báðum endum valllarins.
Njarðvíkingar leiddu 27-18 eftir fyrsta leikhluta og 53-38 í hálfleik. Logi Gunnarsson kom með þrjá þrista inn af tréverkinu og framlagið kom víða hjá Njarðvík. Stólarnir að sama skapi ekki að ná að binda saman jafn þéttan varnarleik og fyrstu tvo leikina.
Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður var Rasio vikið úr húsi í Njarðvíkurliðinu með tvær tæknivillur eftir samskipti sín við dómara leiksins. Það virtist litlu máli skipta fyrir gang leiksins því þegar þetta gerðist var staðan 70-47 fyrir Njarðvík og lokatölur urðu svo 109-78 eins og áður greinir.
Leikur fjögur verður í Síkinu á laugardag og eins og Skagfirðingar eru löngu orðnir landsfrægir fyrir má búast við troðfullu húsi og dagskrá löngu fyrir leik. Nú er líka búið að hleypa einvíginu upp í loft og von á allsherjar körfuboltaveislu í Skagafirði um helgina.
Haukur Helgi Pálsson var stigahæstur í Njarðvíkurliðinu í kvöld, gerði 20 stig og tók 3 fráköst og setti háværan tón varnarlega fyrir heimamenn. Mario Matasovic lék einnig við hvurn sinn fingur með 13 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Heimamenn fengu einnig myndarlegt framlag af bekknum og heilt yfir allt annað að sjá til Njarðvíkinga í kvöld.
Woods leiddi stigaskor Tindastólsmanna í kvöld með 16 stig og 3 fráköst og baráttujaxlinn Ragnar Ágústsson kom með 13 stig og 6 fráköst af tréverkinu hjá gestunum.