Njarðvík skellti sér í 2. sæti Bónus-deildar kvenna í kvöld með öruggum sigri á nýliðum Hamars/ Þórs Þ. 98-70. Emelie Hesseldal landaði sinni fyrstu þrennu á tímabilinu í kvöld með 10 stig, 13 fráköst og 11 stoðsendingar. Hjá gestunum var Hana Ivanusa atkvæðamest með 15 stig og 8 fráköst.
Heimakonur í Njarðvík tóku völdin snemma í leiknum og leiddu 29-19 eftir fyrsta og svo 56-45 í hálfleik þar sem Hamar/Þór Þ. neituðu að láta stigna sig af. Gekk vel í sóknarleik beggja liða en í síðari hálfleik urðu Njarðvíkingar fyrri til að þétta raðirnar og unnu þriðja leikhluta 23-10 og leiddu því 79-55 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Eftirleikurinn var svo auðveldur og lokatölur 98-70 eins og áður greinir.
Framlagið kom úr mörgum áttum í kvöld hjá Ljónynjum þar sem sex leikmenn gerðu 10 stig eða meira í leiknum. Áðurnefnd Hesseldal með þrennu og þá átti Ena Viso sinn besta leik á tímabilinu með 19 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en sú danska hefur verið að koma vel undan landsleikjahléinu. Dinkins lét sitt auðvitað ekki eftir liggja með 18 stig, 5 fráköst og 8 stoðsendingar. Sara Björk Logadóttir átti flottar rispur með 14 stig og svo komu þær Hulda María og Bo Frost vel inn af bekknum, Hulda með 13 stig og Bo 16.
Hana Ivanusa leiddi Hamar/Þór Þ. með 15 stig og 8 fráköst en enginn annar leikmaður gestanna komst í tveggja stafa tölu. Abby Beeman byrjaði vel en lauk leik með 9 stig og 12 stoðsendingar. Einhverra hluta vegna lék Teresa Da Silva aðeins níu mínútur í leiknum í kvöld og skoraði 3 stig en Anna Soffía Lárusdóttir átti fínar rispur með 9 stig og gaf 2 stoðsendingar.
Eftir leikinn í kvöld er Njarðvík í 2. sæti með 10 stig en Hamar/Þór Þ. í 6. sæti með 6 stig. Næsti leikur Njarðvíkinga er á heimavelli gegn Val 26. nóvember en Hamar/Þór Þ. mætir Tindastól í Hveragerði.