spot_img
HomeFréttirNjarðvík skaut Stjörnuna í kaf

Njarðvík skaut Stjörnuna í kaf

Njarðvíkingar tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Njarðvík og Stjarnan mættust í Ásgarði í Garðabæ í oddaleik þar sem lokatölur voru 72-88 Njarðvíkingum í vil. Þriggjastigasýning gestanna í bland við sterkan varnarleik varð banabiti Stjörnunnar að þessu sinni sem nú hefur annað árið í röð kvatt Íslandsmótið eftir oddaleik í 8-liða úrslitum. Þrír leikmenn gestanna gerðu 60 af 88 stigum liðsins en það voru þeir Friðrik Erlendur Stefánsson, Magnús Þór Gunnarsson og Jóhann Árni Ólafsson, allir með 20 stig. Jovan Zdravevski var stigahæstur í liði Stjörnunnar með 23 stig.
Gestirnir byrjuðu betur í kvöld og komust í 11-15 þar sem Jóhann Árni Ólafsson fór mikinn með 10 af 15 fyrstu stigum Njarðvíkinga. Svæðisvörn gestanna var á sínum stað og ekki leið á löngu uns Stjörnumenn fóru að finna glufur, það var þá helst Jovan Zdravevski sem skoraði 17 stig í fyrsta leikhluta. Að tilstuðlan Jovans voru það heimamenn sem leiddu 23-21 eftir fyrsta leikhluta sem var opinn og skemmtilegur.
 
Þegar annar leikhluti var hálfnaður náði Stjarnan góðu 5-0 áhlaupi á einni mínútu og breytti stöðunni í 35-28. Á þessum kafla kom teppa í sóknarleik Njarðvíkinga gegn sterkri Stjörnuvörninni, sólóframmistöður fóru að skjóta upp kollinum og enn eina ferðina var Guðmundur Jónsson kominn í villuvandræði eftir eltingaleik við Justin Shouse.
 
Spjallþáttastjórnandinn Nick Bradford lét ekki bjóða sér þessa sóknartregðu og smellti niður tveimur þristum fyrir Njarðvíkinga og minnkaði hann þannig muninn í 40-38. Friðrik Erlendur Stefánsson jafnaði svo metin í 40-40 á vítalínunni. Stjörnumenn höfðu þó yfirhöndina í hálfleik 45-44 eftir góðan þrist frá Kjartani Atla Kjartanssyni.
 
Jovan Zdravevski var kominn með 22 stig hjá Stjörnunni í hálfleik en hjá Njarðvíkingum voru þeir Jóhann Árni og Nick Bradford komnir með 11 stig.
 
Eftir að Njarðvíkingar höfðu opnað síðari hálfleik 6-0 tók það Stjörnuna þrjár mínútur að næla í sín fyrstu stig. Heimamenn komu boltanum einu sinni í netið á meðan Njarðvíkingar gerðu 12 stig og þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta tók Teitur Örlygsson leikhlé fyrir sína menn.
 
Leikhléið hafði ekki tilætluð áhrif því Njarðvíkingar voru enn við stjórnina og kristallaðist þriðji leikhluti í einu litlu atviki. Þar áttust við Justin Shouse og Friðrik Erlendur Stefánsson. Stjörnumenn tóku inn boltann, Shouse fékk hann í fangið, Friðrik mætti beint í andlitið á Shouse og reif af honum boltann líkt og margir foreldrar gera við börnin sín í nammilandi Hagkaupa þegar sykurmagnið er farið fram úr öllu hófi. Friðrik fór svo upp gegn Pantelic og lagði boltann yfir hann og í körfuna. Nokkuð lýsandi fyrir leikhlutann sem var algerlega í eigu gestanna.
 
Stjörnumenn létu þó ekki bjóða sér hvað sem er og minnkuðu muninn í 53-58 en skömmu síðar kom Jóhann Árni með stuðbombuna fyrir Njarðvíkinga, þristur og staðan 53-65. Liðin héldu svo inn í fjórða leikhluta í stöðunni 58-67 Njarðvíkingum í vil en gestirnir unnu leikhlutann 13-23.
 
Þegar Garðbæingar héldu inn í sína lokatilraun til að saxa á forskotið mætti Friðrik Erlendur Stefánsson út fyrir þriggja stiga línuna og jók muninn í 53-72. Sjaldséður viðburður og kom keðjuverkun af stað. Magnús Þór Gunnarsson ætlaði nú ekki að láta miðherjann sinn fara að stela neinni þrumu svo hann splæsti í fjóra þrista í leikhlutanum, hver öðrum stærri og sumir hverjir í öðru póstnúmeri.
 
Garðbæingar gátu gert fátt annað en fórnað höndum, leiktíðin rann úr höndum þeirra á meðan Magnús Þór jarðaði hvern þristinn á fætur öðrum. Sama hvað Stjörnumenn reyndu þá áttu Njarðvíkingar ávallt svör, gestirnir léku mjög góða vörn í síðari hálfleik og héldu heimamönnum í aðeins 27 stigum á 20 mínútum. Lokatölur reyndust svo 72-88 Njarðvíkingum í vil og fagnaði enginn meir en Magnús Þór Gunnarsson sem er að koma sterkur til baka úr meiðslum.
 
Eins og fyrr segir voru Magnús Þór, Jóhann Árni og Friðrik Erlendur með 20 stig í liði Njarðvíkur. Hjá Stjörnunni náði Jovan Zdravevski ekki að fylgja eftir látum sínum í fyrri hálfleik og lauk leik með 23 stig þar sem hann skoraði aðeins eitt stig í síðari hálfleik. Justin Shouse var svo með 20 stig og 10 stoðsendingar og eflaust margir varnarbakkararnir því fegnir að Justin sé kominn í frí enda hrikalega sterkur leikmaður hér á ferðinni.
 
 
Ljósmynd/ Magnús Þór Gunnarsson smellti niður sex þristum í leiknum og þar af fjórum í fjórða leikhluta.
 
Fréttir
- Auglýsing -