Njarðvík vann 7 stiga sigur 76-83 á ÍR á heimavelli þeirra síðarnefndu, í Hertz Hellinum. Eftir leikinn eru Njarðvík í 6. sæti deildarinnar á meðan að ÍR er í því 10. Leikurinn, sem var hluti af 18. umferð Domino´s deildarinnar var kannski síðasti möguleiki ÍR til þess að gera einhverja atlögu að 8. og síðasta sæti úrslitakeppni þessa árs. Tölfræðilegur möguleiki er þó enn til staðar, en það hlýtur samt sem áður að teljast ansi hæpið að þeir geri eitthvað alvöru áhlaup úr þessu. Njarðvík hinsvegar sem fyrr segir í 6. sæti deildarinnar (4.-6. reyndar) og fyrir einhverju síðan búið að tryggja sér miða á ballið sem hefst núna 17. næsta mánaðar.
Fyrir leikinn kom það í ljós að Jonathan Mitchell, erlendur leikmaður ÍR, myndi ekki taka þátt í leik kvöldsins, en hann ku vera að jafna sig eftir lungnabólgu. Kom víst heim af spítalanum um helgina og þarf nú að gefa sér tíma til þess að jafna sig. Þjálfari ÍR var hinsvegar bjartsýnn á að Jonathan myndi ná að taka einhvern þátt í lokahnykk þessa móts, án þess þó hann vildi gefa upp hvænar kappinn yrði tilbúinn nákvæmlega.
Þegar þessi lið mættust síðast í deildinni sigraði Njarðvík einnig, 100-86, en sá leikur fór fram í Ljónagryfjunni. Þá var það Oddur Rúnar Kristjánsson sem var hvað atkvæðamestur fyrir ÍR (24 stig / 10 stoðsendingar), en eins og margir vita, þá skipti Oddur yfir í Njarðvík í síðasta leikmannaglugga.
Njarðvík fór betur af stað í leiknum, voru komnir í 0-6 eftir aðeins mínútu af leik. Þessu voru Breiðhyltingar þó snöggir að svara, tóku létt 11-2 áhlaup á næstu 2 mínútum. Þetta náðu þeir að gera með hjálp hreint brjálaðrar fulls vallar pressu, sem setti ákveðið fát á sókn Njarðvíkur (þetta virtist vera hluti af áætlun þeirra, því þeir pressuðu slíkt allan leikinn) Fyrir Njarðvík voru það þeir bræður Haukur Helgi Pálsson og Logi Gunnarsson sem héldu uppi sóknarleik sinna manna, en leikhlutinn endaði með 2 stiga forystu heimamanna, 25-23.
Í öðrum leikhlutanum héldu heimamenn áfram að sýna af sér þessa einstöku orku í vörninni og þó Njarðvík hafi verið 1 stigi yfir í hálfleik, 39-40, þá virtist ákefð heimamanna og sú staðreynd að þeir voru (þrátt fyrir að vera kannski ekki eð betra liðið á pappírum) að fá framlag frá næstum öllum í liðinu. Virtist traustverðugra heldur en framlög leikmanna Njarðvíkur. Sem voru að mestu aðeins að fá eitthvað úr Hauk Helga, Jeremy og Loga.
Atkvæðamestur í hálfleik fyrir heimamenn var Björgvin Hafþór Ríkharðsson með 6 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar og 2 varin skot. Á meðan að fyrir gestina var það Jeremy Atkinson sem dróg vagninn með 16 stigum og 4 fráköstum.
Seinni hálfleikinn opnaði kempan Sveinbjörn Claessen fyrir heimamenn með fallegum flotbolta og kom þeim þar með aftur í forystuna 41-40. Á þessum tímapunkti er það aðeins farið að sjást á villutöflunni hvað heimamenn höfðu spilað af mikilli orku fram að þessu í leiknum. Áðurnefndur Sveinbjörn Claessen, Daði Berg Grétarsson og Vilhjálmur Theodór Jónsson voru allir komnir með sínar 3. villur. Spurning er hvort að þetta hafi haft einhver áhrif á “dauður-dauður” stemminguna sem að ÍR hafði skapað svo vel fram að þessu varnarlega?
Njarðvík allaveganna fór að ganga betur að brjóta aftur pressuna og voru komnir með 8 stiga forystu þegar 3 mínútur lifðu eftir af leikhlutnum. Undir lok leikhlutans meiðist Vilhjálmur Theodór svo þegar að hann, að er virtist, snéri sig eftir að hafa lent illa eftir skot í sókninni. Sem var miður, því hann spilaði ekki meira í leiknum, eftir að hafa fram að þessu verið að skila flottum tölum, 11 stig og 5 fráköst. Tekið inn í dæmið að þarna var ÍR einnig að spila án annars stórs manns, Mitchell. Var ljóst að róðurinn undir körfunni yrði aðeins þyngri fyrir þá.
Leikhlutinn endaði í 55-62 forystu gestanna eftir að á lokasekúndunum hafði Björgvin Hafþór brotið heimskulega á Hauk Helga Pálssyni fyrir utan þriggja stiga línuna um leið og flautan gall. Þar sem Haukur svo setti 2 af 3 vítaskotum sínum niður.
Í lokaleikhlutanum bætti ÍR svo í í vörninni (eins og þeir væru ekkert þreyttir eftir að hafa pressað allan völl í 30 mínútur) Það var í raun frekar eins og þeir hefðu aukinn kraft. Náðu að stela boltanum í innköstum, fá 5 sekúndur dæmdar á gestina og fleira slíkt. Uppskáru líka eftir því, voru aftur búnir að vinna niður mun Njarðvíkur og jafna í 69-69 þegar að leikhlutinn var um það bil hálfnaður.
Njarðvíkingar hinsvegar komu til baka. Sýndu það þessar síðustu 5 mínútur að þó orkan virtist öll með heimamönnum, voru gæði þeirra einfaldlega númeri stærri. Leikurinn var þó frekar jafn, allt þangað til um 1-2 mínútur voru eftir. Þegar að fyrrum ÍR-ingurinn, Oddur Rúnar Kristjánsson, sökkti gömlu félögunum með tveimur þristum (hann hafði haft frekar hægt um sig fram að þessu í leiknum, var 0/4 í fyrri hálfleiknum) Við þessu áttu heimamenn ekki svör, skotin geiguðu að utan og Njarðvík sigldi þessum í heimahöfn, 76-83.
Maður leiksins var leikmaður Njarðvíkur Jeremy Atkinson, en hann skoraði 26 stig og tók 5 fráköst á þeim 35 mínútum sem hann spilaði í leiknum.
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur
Viðtöl: