spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaNjarðvík með sterkan lokasprett og sigur í grannaglímunni

Njarðvík með sterkan lokasprett og sigur í grannaglímunni

Njarðvík hafði betur gegn Keflavík í rimmunni um Reykjanesbæ í Bónusdeild kvenna í kvöld.

Lokatölur 105-96 og því er möguleiki Njarðvíkinga á deildarmeistaratitli enn uppi á borði eins og sakir standa. Paulina Hersler leiddi Njarðvíkinga með 33 stig í kvöld en Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst í Keflavík með 19 stig. 

Það var talsvert skorað í kvöld og voru leikar jafnir 27-27 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Dinkins var með 11 stig hjá Njarðvík og Sara 7 í liði Keflavíkur. Gestirnir úr Blue-höllinni leiddu svo í leikhléi 50-52. 

Einn allra framlagshæsti leikmaður deildarinnar, Jasmine Dickey, haltraði af velli undir lok fyrri hálfleiks og þá komin með 16 stig en hún kom svo ekkert við sögu í síðari hálfleik. Vonum að þessi öflugi leikmaður verði fljótur að jafna sig. 

Keflavík lét þó engan bilbug á sér finna þó Dickey léki ekki með í síðari hálfleik og komust í 62-69 en Njarðvík minnkaði muninn í 77-78 og þannig stóðu leikar eftir þriðja leikhluta. Njarðvíkingar voru svo talsvert sterkari í fjórða leikhluta og unnu hann 28-18 og leikinn 105-96 eftir að hafa opnað leikhlutann með 10-0 áhlaupi. 

Dinkins, Hersler og Hesseldal voru Keflvíkingum erfiðar í kvöld. Hersler með 33 stig, Dinkins með 30 stig og 15 stoðsendingar og Hesseldal bætti við 23 stigum og 17 fráköstum. Sara Rún Hinriksdóttir gerði 19 stig fyrir Keflavík, Anna Lára 18 og Thelma Dís 17 en það verður ekki annað sagt en að Keflavík hafi gert vel í fjarveru Dickey í síðari hálfleik. 

Njarðvík er nú í 2. sæti í A-hluta með 30 stig en Keflavík í 4. sæti með 24 stig. Haukar tróna á toppi deildarinnar með 34 stig og dugir bara einn sigur til viðbótar til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. 

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -