spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaNjarðvík með sigur í N1-höllinni - Valur ennþá í neðri hluta deildarinnar

Njarðvík með sigur í N1-höllinni – Valur ennþá í neðri hluta deildarinnar

Njarðvík heimsótti Val í N1-höllinni í kvöld í 17. umferð Bónus deildar kvenna. Leikurinn var í járnum mest allan tímann en Njarðvík náði að sigra á lokametrunum. Það hefði varla mátt standa tæpara, en leiknum lauk 76-78, Njarðvík í vil.

Fyrir leik

Valur var áfram að spila án Þórdísar Jónu Kristjánsdóttur sem var á bekknum í borgaralegum klæðnaði. Aðrar virtust heilar og þetta var 5. leikurinn hjá Önnu Kolyandrova, tvíburasystur Mariu Kolyandrova (sem spilaði í byrjun tímabils fyrir Stjörnuna).

Njarðvíkingar voru að spila sinn annan leik með sænska framherjanum sínum, Paulinu Hersler.

Gangur leiks

Liðin hófu bæði leik með góðri sókn en slakri vörn, enda skoruðu liðin að vild fyrstu mínúturnar, að því er virtist. Liðin fundu vopn sín varnarlega eftir því sem á leið og það hægðist aðeins á stigaskorinu. Valsstúlkur áttu erfitt með að dekka bæði Emilie Hesseldal og Paulinu Hersler inni á vellinum en Guðbjörg Sverrisdóttir setti nokkra vel valda þrista fyrir heimaliðið til að halda stöðunni jafnri. Fyrsta leikhlutanum lauk 20-20, allt jafnt.

Meira flæði komst á sóknarleik Vals í byrjun annars leikhlutans og þau náðu forystunni um miðbik fjórðungsins, 32-30. Þá kom gott 8 stiga áhlaup hjá Njarðvíkingum sem neyddi Jamil Abiad, þjálfara Vals, til að taka leikhlé í stöðunni 32-38. Valur náði ekki að jafna leikinn alveg en komust þó nær og fyrri hálfleiknum lauk í stöðunni 41-45, Njarðvík í vil.

Njarðvík voru duglegari að brjóta af sér í byrjun seinni hálfleiks og eins og hendi væri veifað voru þær grænklæddu skyndilega komnar í bónus með 7 mínútur eftir af þriðja. Paulina Hersler og Brittany Dinkins voru báðar með þrjár villur á þessum tímapunkti og Paulina var tekin út af. Brittany fékk hins vegar að vera inn á sem skilaði sér í fjórðu villunni hennar 3 mínútum seinna.

Valur hafði verið að hraða leiknum aðeins á þessum kafla leiksins og undir lok þriðja fjórðungsins spiluðu heimastúlkur á aðeins íslenskum hóp. Það skilaði sér í 5 stiga sveiflu og leikhlutanum lauk 16-13 fyrir heimastúlkum (og 3-9 í villum). Staðan 57-58 fyrir gestunum.

Lokaleikhlutinn var mjög spennandi og fram og til baka. Valsarar settu þrist sem Njarðvíkingar svöruðu fyrir í næstu sókn og leikurinn fór aðeins úr böndunum, mikið af mistökum á báðum bógum. Þetta varð smá hlaupaleikur á tímabili sem hentaði Valsstúlkum betur og þær náðu 6 stiga forystu þegar tæpar fjórar mínútur lifðu leiks (73-67). Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, tók þá annað leikhléið sitt í lokafjórðungnum (og í seinni hálfleiknum).

Njarðvíkingar mættu beittari eftir leikhléið og settu næstu 9 stig í röð til að taka þriggja stiga forystu með mínútu til leiksloka. Valsarar fengu nokkur góð tækifæri til að jafna leikinn en klikkuðu á nokkrum mikilvægum vítaskotum í brakinu og lokastaðan varð því 76-78, Njarðvík í vil.

Tölfræði leiksins

Vendipunkturinn

Í lok fjórða leikhluta voru Valsstúlkur með 6 stiga forystu. Eftir leikhlé Einars Árna setti fyrst Hulda María Agnarsdóttir þrist í hraðaupphlaupi og svo kom Lára Ösp Ásgeirsdóttir sterk inn með sniðskoti ásamt vítaskoti (brotið á henni í sniðskotinu) og síðan setti hún þriggja stiga skot til að Njarðvík næði þriggja stiga forystu. Valsstúlkur gátu ekki jafnað metin eftir það (þrátt fyrir 6 vítaskot) og því fór sem fór.

Atkvæðamestar

Hjá Njarðvík er erfitt að meta hver var mikilvægust fyrir liðið í kvöld. Paulina Hersler var stigahæst með 18 stig á meðan að Emilie Hesseldal var framlagshæst með 23 framlagsstig (10 stig, 14 fráköst). Hulda María Agnarsdóttir var aftur á móti með hæsta +/- tölfræðina með +8 stig á meðan að hún var inn á (ásamt því að eiga stóran þrist á lokamínútunum). Allar voru atkvæðamiklar í leiknum, að öðrum ólöstuðum.

Í Valsliðinu voru þær Jiselle Thomas og Alyssa Cerino atkvæðamestar. Báðar skoruðu 20 stig og áttu fínan leik. Jiselle hafði aðeins betri skotnýtingu (57%) og gaf fleiri stoðsendingar (7 á heildina).

Tölfræðimolinn

Vítaskotin skiptu máli í þessum leik. Valur klikkaði á fleirum vítaskotum (12 klikkuð víti) en Njarðvík hitti úr (10 vítaskot sem rötuðu rétta leið). Alyssa Cerino hjá Val fékk 18 vítaskot í leiknum (12 sóttar villur) og fram að lokamínútunni var hún 10/12 í vítum (83% og hafði m.a. sett fyrstu 10 vítaskotin sín í röð).

Á lokamínútunni fékk hún tvisvar sinnum í röð 3 vítaskot. Í fyrra skiptið setti hún 2/3 (klikkaði á seinasta) og því voru Valsstúlkur einu stigi á eftir Njarðvík í stað þess að vera jafnar. Valsarar neyddust til að brjóta og staðan aftur komin upp í þriggja stiga mun þegar brotið var á Alyssu aftur í þriggja stiga skoti á lokasekúndu leiksins. Hún klikkaði á fyrsta, setti annað og reyndi að klikka á síðasta til að eiga séns á sóknarfrákasti og tveggja stiga körfu. Það tókst ekki.

Fyrr í leiknum hafði Ásta Júlía Grímsdóttir sem dæmi klikkað á fjórum vítaskotum í röð. Vítaskotin skiptu máli.

Kjarninn

Njarðvíkingar eru með þessum sigri komnar upp fyrir Keflavík og sitja í 3. sæti í deildarkeppninni. Þær geta komist upp í annað sæti deildarinnar með sigri á Þór Akureyri í næsta leik.

LEIÐRÉTTING: Eftirfarandi málsgrein var röng í upphaflegri frétt vegna misskilnings greinahöfundar á hvernig jafntefli í stigaskori liða væru sætt. Það hefur verið leiðrétt.

Valsarar eru í aðeins erfiðari stöðu eftir þetta tap. Með sigri hefðu þær stjórnað eigin örlögum og sigur í 18. umferð hefði skilað þeim fimmta sætinu hvort sem að Tindastóll ynni Hauka í næsta leik eða ekki. Nú verða þær hins vegar að vinna sinn næsta leik á móti Hamar/Þór OG vona að Tindastóll tapi fyrir Haukum. Að öðrum kosti eru þær fastar í neðri hluta deildarinnar eftir lok næstu umferðar.

Einar Árni: “Feginn með stigin tvö.”
Emilie Hessedal: “Við settum nokkur stór skot í lokin, það var risastórt fyrir okkur.”

Umfjöllun og viðtöl: Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -