spot_img
HomeFréttirNjarðvík leiðir einvígið: Brenton svaraði kallinu

Njarðvík leiðir einvígið: Brenton svaraði kallinu

23:29 

{mosimage}

 

Íslandsmeistarar Njarðvíkur hafa tekið 2-1 forystu í einvíginu gegn Grindavík í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Brenton Birmingham svaraði kalli Njarðvíkinga í kvöld er hanns setti niður 17 stig en í fyrstu tveimur leikjum liðanna gerði hann aðeins 11 stig samtals og var því allt annað að sjá til leikmannsins í kvöld. Páll Axel Vilbergsson átti góðan leik fyrir Grindavík en hann gerði 28 stig fyrir gestina en það voru heimamenn sem höfðu nauman sigur í lokin. Liðin mætast í fjórða leiknum í Grindavík á mánudag kl. 20:00 þar sem Njarðvíkingar geta með sigri tryggt sér sæti í úrslitum deildarinnar.

 

Varnir beggja liða voru fremur þunnar í upphafi leiks og skiptust liðin því á að hafa forystuna en Brenton stimplaði sig snemma inn í leikinn er hann tróð glæsilega yfir nokkra Grindvíkinga og strax í næstu sókn setti hann niður þrist. Gestirnir létu rispu Brentons ekki á sig fá en þeir skelltu sér í svæðisvörn undir lok fyrsta leikhluta sem gekk þokkalega. Guðmundur Jónsson kom sterkur inn af bekknum fyrir Njarðvík í kvöld en innkomu leiksins átti Egill Jónasson þegar hann gerði viðstöðulausa flautukörfu í lok fyrsta leikhluta eftir stoðsendingu frá Brenton Birmingham og staðan 26-24 fyrir Njarðvík. Glæsileg tilþrif sem hefðu átt að kynda vel í Njarðvíkingum.

 

Þrátt fyrir tilþrif Egils og Brentons létu gestirnir ekki slá sig út af laginu og jöfnuðu leikinn í 39-39 með þriggja stiga körfu frá Páli Axeli. Igor Beljanski og Friðrik Stefánsson voru ekki að finna taktinn í sókninni né heldur Jeb Ivey svo það kom í hlut þeirra Brentons, Jóhanns og Guðmundar að ríða á vaðið. Grindvíkingar gerðu vel að útiloka Jeb Ivey úr leiknum í fyrri hálfleik og þar átti Þorleifur Ólafsson mestan heiðurinn en hann var sem límdur við Ivey.

 

Guðmundur Jónsson átti síðasta orðið í fyrri hálfleik en hann setti niður þrist þegar 3 sekúndur voru til hálfleiks og breytti stöðunni í 48-44 Njarðvík í vil. Brenton Birmingham gerði 14 stig í fyrri hálfleik en Páll Axel var með 16. Í síðari hálfleik fór minna fyrir Brenton en þá tók Jeb Ivey við keflinu.

 

{mosimage}

 

Jeb Ivey kom með góðan þrist fyrir Njarðvíkinga í upphafi þriðja leikhluta og breytti stöðunni í 53-46, Grindavík svaraði að bragði og staðan 53-48 en eftir það skoruðu liðin ekki í nokkrar mínútur og var ekki laust við að bæði lið væru klaufsk og stressuð. Ekki bætti slök dómgæsla úr skák en þeir Björgvin Rúnarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson hafa átt betri daga. Slælegt gengi liðanna í sókninni í þriðja leikhluta verður þó ekki skrifað á dómarana en að lokum brustu flóðgáttirnar og Njarðvíkingar leiddu 60-50 þegar um þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Við það tók Friðrik Ragnarsson leikhlé og eftir leikhléið gerðu Grindvíkingar 8 stig í röð og minnkuðu muninn í 60-58. Jeb Ivey var þó enn að verki fyrir utan þriggja stiga línuna og gerði síðustu stig leikhlutans og breytti stöðunni í 63-58 fyrir Njarðvík.

 

Í fjórða leikhluta benti allt til þess að Njarðvíkingar væru að fara að stinga af en Grindvíkingum tókst ávallt að brúa bilið eftir góða kafla heimamanna. Jeb Ivey kom Njarðvíkingum í 77-66 með þrist en Páll Axel svaraði að bragði með öðrum þrist í næstu sókn og staðan 77-69.

 

Þegar um tvær mínútur voru til leiksloka fékk Jóhann Árni Ólafsson sína fimmtu villu en þar var um að ræða tæknivillu. Njarðvíkingar áttu innkast undir Grindavíkurkörfunni og féll Jóhann í gólfið. Dómarar leiksins vildu meina að Jóhann hefði verið með leikaraskap og fékk hann dæmda á sig tæknivillu fyrir vikið. Grindvíkingar settu niður bæði vítin í kjölfarið og staðan orðin 85-78 Njarðvík í vil. Adam Darboe minnkaði muninn enn frekar í 85-80 og Páll Axel náði muninum niður í þrjú stig, 85-82.

 

{mosimage}

 

Páll Kristinsson fékk kjörið tækifæri til þess að minnka muninn í eitt stig þegar 35 sekúndur voru til leiksloka en hann brenndi af teigskotinu. Grindavík braut strax á Njarðvíkingum sem fóru á línuna og Jeb Ivey setti niður bæði vítin og staðan 87-82 þegar 30 sekúndur voru til leiksloka.

 

Ótrúlegt en satt náðu Grindvíkingar að koma sér aftur inn í leikinn á skömmum tíma þegar Þorleifur Ólafsson setti niður þriggja stiga körfu og staðan 88-87 og sjö sekúndur til leiksloka. Fyrir þriggja stiga körfu Þorleifs hafði Friðrik Stefánsson aðeins hitt úr einu víti af fjórum sem hann fékk með skömmu millibili en hann hefði hæglega getað gert út um leikinn á vítalínunni.

 

Njarðvíkingar tóku innkast eftir þriggja stiga körfu Þorleifs og náðu að halda boltanum þar til tvær sekúndur voru eftir en þá var brotið á Brenton sem setti niður annað vítið og staðan 89-87 Njarðvík í vil. Grindavík gat ekki tekið leikhlé á þessum tíma þar sem þeir höfðu notað öll leikhléin sín og því rann leikurinn úr greipum þeirra og Njarðvíkingar fögnuðu sigri.

 

Leikurinn í kvöld var frábær skemmtun og ljóst að leikurinn á mánudag verður ekkert síðri. Jonathan Griffin gerði 22 stig fyrir Grindavík í kvöld og því gerðu þeir Páll Axel samtals 50 stig fyrir Grindavík en Brenton gerði 17 hjá Njarðvík og Jóhann Árni Ólafsson var með 16. Guðmundur Jónsson átti ljómandi góðan dag með sterkri innkomu af varamannabekknum og þá má ekki líta framhjá sterkri varnarvinnu Þorleifs Ólafssonar sem hélt Jeb Ivey niðri langvinnum stundum en Jeb náði þó að stríða Grindvíkingum lítið eitt í síðari hálfleik.

 

Gangur leikins

 

8-8, 18-19,26-24

28-28,35-33,48-44

53-48,60-50,63-58

71-66, 83-78, 89-87

Tölfræði leiksins

 

www.vf.is

{mosimage}  

Fréttir
- Auglýsing -