spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNjarðvík lagði topplið Keflavíkur í Blue Höllinni

Njarðvík lagði topplið Keflavíkur í Blue Höllinni

Njarðvík lagði heimamenn í Keflavík í kvöld í Subway deild karla, 74-78. Eftir leikinn sem áður er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 14 stig á meðan að Njarðvík er í 3.-4. sætinu með 14 stig.

Gangur leiks

Gestirnir úr Njarðvík byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Koma sér snemma í fyrsta leikhlutanum í þægilega forystu og eru 9 stigum yfir þegar að fjórðungurinn er á enda, 14-23. Keflavík nær þó aðeins að halda í við þá undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar að liðin halda til búningsherbergja er munurinn 6 stig, 35-41.

Fyrir Keflavík voru Jaka Brodnik og Dominykas Milka bestir í fyrri hálfleiknum. Jaka með 11 stig, 8 fráköst og Dominykas 12 stig og 3 fráköst. Fyrir Njarðvík var Fotios Lampropoulos fremstur meðal jafningja í fyrri hálfleiknum með 14 stig, 8 fráköst og Mario Matasovic bætti við 9 stigum.

Heimamenn í Keflavík byrja seinni hálfleikinn af miklum krafti. Taka 17-4 áhlaup á fyrstu 6 mínútum þriðja leikhlutans og snúa stöðunni sér í vil, 52-45. Njarðvík nær þó aftur að vera skrefinu á undan undir lok fjórðungsins, en staðan fyrir þann fjórða var 52-55. Í fjórða leikhlutanum gerði Njarðvík það sem þurfti til þess að sigra að lokum með 4 stigum, 74-78, en Keflavík náði að skera niður forystuna á lokasekúndunum, aldrei þó þannig að þetta væri neitt sérstaklega tæpt í lokin.

Kjarninn

Njarðvík vann nokkuð góðan sigur í kvöld í heldur rislitlum leik, verður að segjast. Hefðu alveg getað kastað sigrinum frá sér með afleitri skotnýtingu, en heimamenn í Keflavík virtust hreinlega ekki til þess búnir að hirða þetta af þeim. Lykilmenn Keflavíkur fyrir utan Jaka Brodnik, langt frá sínu besta á meðan að atvinnuferna Njarðvíkur, Mario, Fotios, Haukur Helgi og Nico skiluðu sínu.

Tölfræðin lýgur ekki

Keflvíkingar heldur þunnir af bekknum sóknarlega í kvöld með aðeins 3 stig á meðan að bekkur Njarðvíkur skilaði 27 stigum.

Atkvæðamestir

Fotios Lampropoulos var bestur í liði Njarðvíkur í kvöld með 21 stig og 12 fráköst. Þá bætti Mario Matasovic við 19 stigum og 8 fráköstum.

Fyrir Keflavík var Jaka Brodnik lang bestur með 31 stig og 18 fráköst og Dominykas Milka bætti við 16 stigum og 8 fráköstum.

Hvað svo?

Njaðvík á leik næst komandi mánudag 3. janúar gegn Stjörnunni í Ljónagryfjunni á meðan að Keflavík tekur á móti Vestra komandi fimmtudag 6. janúar.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -