spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaNjarðvík lagði Þór öðru sinni í IceMar-Höllinni

Njarðvík lagði Þór öðru sinni í IceMar-Höllinni

Njarðvík og Þór Akureyri áttust við í kvöld í sínum fyrsta leik í A-hluta Bónusdeildar kvenna. Fyrir leikinn í kvöld höfðu liðin einmitt mæst í lokaumferðinn í venjulegri deildarkeppni þar sem Njarðvík hafði sigur. Í kvöld voru það ljónynjur sem höfðu betur enn á ný, Þórsarar gerðu heiðarlegar tilraunir til að gera atlögu að stigunum tveimur en öflug byrjun Njarðvíkinga í fjórða leikhluta tryggði þeim á endanum 93-80 sigur. 

Dinkins var nærri þrennu í kvöld með 26 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar en Pauline var stigahæst með 28 stig og 9 fráköst. Hjá Þór var Amandine með 31 stig og Emma Karólína 15. 

Njarðvík leiddi 26-16 að loknum fyrsta leikhluta. Heimakonur 6 af 12 í þristum í fyrsta leikhluta en hjá gestunum var það Emma Karólína sem hélt þeim við efnið og gerði 10 af 16 fyrstu stigum gestanna í leiknum. Þórsarar ekki að finna fjölina utan við þriggja stiga línuna í byrjun og voru 0-7 í þristum. 

Þórsarar fóru vel af stað í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn í 30-26, góð orka í varnarleik gestanna í 2. leikhluta. Njarðvíkingar náðu þó að jafna sig á þessu áhlaupi og koma muninum aftur yfir 10 stiga múrinn og leiddu 48-37 í hálfleik. 

Dinkins var með 12 stig og Paulina 10 hjá Njarðvík í hálfleik og Krista Gló 9 (3-4 í þristum). Hjá Þór var Amandine með 12 stig í leikhléi og Emma Karólína 12. Eva Wium varð að stíga varlega til jarðar í síðari hálfleik en hún fékk sína þriðju villu í fyrri hálfleik, aðrar í báðum liðum ekki í teljandi villuvandræðum.  

Munurinn hélst áfram í kringum 10 stigin eftir þriðja leikhluta, Njarðvík leiddi 66-56 fyrir fjórða en Þórsarar voru að selja sig dýrt. Emma Karólína og Amandine báru uppi stigaskorið á meðan baráttujaxlinn Maddie átti við stóru leikmenn Njarðvíkur. Á sama tíma voru fleiri að leggja í púkkið Njarðvíkurmegin. Þrátt fyrir það var þriðji leikhluti jafn og ekki ústéð með það hvar stigin myndu enda að leik loknum. 

Ljómandi gott upphaf hjá ljónynum í fjórða breytti stöðunni í 75-58 eftir tæplega tveggja mínútna leik og brekkan orðin brattari fyrir gestina. Dinkins kom Njarðvík svo í 80-58 og þar með var ævintýrið úti. Lokatölur reyndust svo 93-80 og ekki ósvipaðar þeim er liðin mættust í lokaumferðinni fyrir skemmstu þar sem Njarðvík vann 94-80. 

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -