Njarðvík kjöldróg Snæfell í Subwaydeild kvenna í kvöld. Lokatölur 108-46. Með Shaw í borgaralegum klæðum sáu Hólmarar aldrei til sólar í Ljónagryfjunni.
Njarðvíkingar byrjuðu 16-0 og leiddu 27-4 eftir fyrsta leikhluta. Gestirnir komust ekkert áleiðis gegn vörn heimakvenna sem í ofanálag voru að hitta vel fyrir utan með 52% þriggja stiga nýtingu í hálfleik.
Snemma í öðrum leikhluta voru allir leikmenn Njarðvíkurliðsins búnir að koma inn á parketið, níu af þeim komnir með stig og staðan 47-24 í hálfleik. Anðela og Tynice með 10 hjá Njarðvík en Seck 9 hjá Snæfell í leikhléi.
Fátt verður sagt um síðari hálfleikinn annað en það að munurinn gerði fátt annað að aukast, 81-32 eftir þriðja og lokatölur 108-46 eins og áður greinir.
Eftir kvöldið eru Hólmarar enn á botni deildarinnar án stiga en Njarðvíkingar komnir með 12 stig í baráttunni við topp deildarinnar.
Sex Njarðvíkingar gerðu 10 stig eða meira í kvöld. Stigahæst var Tynice Martin með 26 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar og henni næst var Strize með 16 stig og 7 stoðsendingar en stigahæst gestanna var Secka með 12 stig og 8 fráköst.
Næsti leikur Njarðvíkinga er 22. nóvember gegn Val að Hlíðarenda en Snæfell fær Breiðablik í Hólminn sama kvöld.