spot_img
HomeFréttirNjarðvík Íslandsmeistari í 10.fl karla

Njarðvík Íslandsmeistari í 10.fl karla

 Njarðvíkingar tóku Íslandsmeistaratitilinn í 10. flokki karla nú rétt í þessu með sanngjörnum sigri á liði Grindvíkinga. Lokastaðan var 76:53 og maður leiksins að þessu sinni Ragnar Helgi Friðriksson sem endaði leik með 17 stig, 5 stolna bolta og 8 stoðsendingar.  En hjá Grindvíkingum var það Hilmir Kristjánsson sem var þeirra stigahæstur með 18 stig.
 Það voru Njarðvíkingar sem hófu leikinn með krafti og settu fyrstu stig leiksins, þristur frá Ragnar Helga Friðrikssyni. Grindvíkingar voru hinsvegar fljótir að jafna en það dró ekki til tíðinda fyrr en á 6. mínútu leiksins sem að Njarðvíkingar náðu að stela knettinum og komast í 10:6 sem virtist fara illa í Jóhann Árna Ólafsson þjálfara Grindavíkur sem tók leikhlé og fór yfir málin með sínu liði. Jón Arnór Sverrisson hafði komið af bekknum hjá Njarðvík og setti niður 7 stig í röð fyrir Njarðvíkinga, frábær innkoma hjá pilt.  Ofaní það bætti svo Ragnar Helgi þrist og staðan allt í einu orðin 15:6 Njarðvíkinga í vil. Þegar yfir lauk var forysta Njarðvíkinga 9 stig eftir fyrsta leikhluta leiksins, 19:10. 
 
Grindvíkingar hófu að rétta hlut sinn í leiknum í öðrum leikhluta með góðri baráttu og skynsömum leik.  Strax eftir 2 mínútna leik í öðrum leikhluta höfðu þeir minnkað muninn niður í 19:17 og voru þá helst fráköstin að angra Njarðvíkinga en Grindvíkingar réðust hart í sóknarfráköstin sem skiluðu þeim öðrum möguleika á sókn sinni. En aftur tóku þá Njarðvikingar við sér og hertu vörn sína til muna.  Sóknarlega voru þeir að dreyfa boltanum vel sem endaði nánast undantekningalaust í opnum skotum sem þeir settu niður komu sér í þægilegt 1 stiga forskot, 30:19 þegar 2:30 mín lifðu af öðrum leikhluta.  Staðan í hálfleik var 34:25 Njarðvíkinga í vil eftir nokkuð harðar loka mínútur í fyrri hálfleik.  Hjá Njarðvík var Ragnar Helgi Friðriksson með 11 stig en hjá Grindavík var það Aðalsteinn Pétursson sem var stigahæstur með 8 stig. 
 
Jón Arnór Sverrisson setti tóninn fyrir seinni hálfleik og setti langan þrist þar næst fylgdi Kristófer Gylfason hjá Grindvíkingum með þrist og þrennuna í þessari seríu lokaði svo Kristinn Pálsson hjá Njarðvík með þrist.  Mikið var skorað í byrjun seinni hálfleiks og flott tilþrif hjá þessum framtíðarstjörnum. Grindvíkingar voru að berjast vel og héldu muninum í þessum 10 stigum en staðan var 45:35 Njarðvík í vil þegar tæpar fjórar mínútur voru til loka þriðja leikhluta og Njarðvíkingar að skapa sér betri færi á þeim tímapunkti. Njarðvíkingar voru skynsamir og keyrðu hart upp að körfu Grindvíkinga og skoruðu ýmist eða enduðu á vítalínunni.  Aðalsteinn var enn drjúgur hjá Grindvíkingum og barðist vel enda hraustur drengur og lét vel finna fyrir sér.  En það kom ekki að sök því varnarvinna Grindvíkinga var ekki nægilega góð og klaufaskapur á lokasprettinum hjá þeim færði Njarðvíkingum afar vænlega stöðu fyrir síðasta leikhlutann en staðan var 58:39 Njarðvíkinga í vil þegar flautan gall. 
 
 
 
Grindvíkingar höfðu komið sér í ansi djúpa holu fyrir síðasta fjórðung en börðust vel og ætluðu ekki að játa sig sigraða án baráttu. En Njarðvíkingar spiluðu við hvurn sinn fingur og voru skynsamir í sínum leik.  Þegar um þrjár mínútur voru til loka leiks var enn 19 stiga munur, 62:43 og fátt sem benti til þess að Grindvíkingar myndu ná að brúa það bil. Grindvíkingar pressuðu stíft en án árangurs og þegar um 3 mínútur voru til loka fékk Aðalsteinn sína 5. villu og því skarð fyrir skildi hjá þeim gulu. Hilmir Kristjánsson besti leikmaður Grindvíkinga reyndi hvað hann gat að koma sínu liði inní leikinn en allt kom fyrir ekki og sigurinn verðskuldaður hjá þeim grænklæddu að þessu sinni. 
 
Sem fyrr segir var það Ragnar Helgi Friðriksson sem var valinn maður leiksins með 17 stig og 8 stoðsendingar.
 
Fréttir
- Auglýsing -