spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaNjarðvík hélt í við toppliðin með sigri gegn Breiðablik

Njarðvík hélt í við toppliðin með sigri gegn Breiðablik

Njarðvík lagði Breiðablik nokkuð örugglega í Smáranum í kvöld í 11. umferð Subway deildar kvenna. Eftir leikinn er Njarðvík í 2.-3. sæti deildarinnar með átta sigra líkt og Grindavík á meðan að Breiðablik er í 9. sætinu með einn sigur eftir fyrstu 11 umferðirnar.

Óhætt er að segja að Njarðvík hafi farið nokkuð örugglega í gegnum verkefni kvöldsins gegn Blikum. Eftir fyrsta leikhluta leiða þær með 18 stigum, en Blikar ná aðeins að malda í móinn undir lok fyrri hálfleiksins og koma í veg fyrir að gestirnir bæti enn við forskot sitt. Staðan 30-48 þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Njarðvík nær svo öðrum góðum kafla í upphafi seinni hálfleiksins og fara langleiðina með að tryggja sér sigurinn í þriðja leikhlutanum, sem endar 50-76 þeim í vil. Í þeim fjórða gera þær svo nóg til að vinna leikinn gífurlega örugglega, 63-92.

Atkvæðamestar fyrir Njarðvík í leiknum voru Jana Falsdóttir með 21 stig, 4 fráköst og Emilie Hesseldal með 15 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar. Fyrir heimakonur í Blikum var Brooklyn Pannell atkvæðamest með 21 stig og 6 stolna bolta.

Bæði lið leika næst komandi miðvikudag 6. desember, en þá tekur Njarðvík á móti Haukum í Ljónagryfjunni og Breiðablik heimsækir Keflavík í Blue höllina.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -