Þórsarar komu í heimsókn í Ljónagryfuna í kvöld. Fyrir leikinn voru Njarðvíkingar einir á toppnum og Þórsarar í 6. sæti. Bæði lið koma til leiks eftir góða sigra í síðustu umferð, þar sem heimamenn sigruðu Keflavík á útivelli og gestirnir lögðu Tindastól á heimavelli.
Mikið kapp var í báðum liðum og leikurinn jafn fyrstu mínúturnar en svo fóru Njarðvíkingar að sigla fram úr og komust mest 6 stigum yfir. Staðan eftir fyrsta leikhluta 23 – 20.
Heimamenn byrjuðu annan leikhluta betur og bættu í fyrstu rúmu tvær mínúturnar og komust 10 stigum yfir áður en Þórsarar mættu til leiks. Gestirnir kroppuðu niður muninn hægt og rólega og munaði minnst einu stigi á milli liðanna. En Njarðvíkingar bættu aðeins í á lokamínútunni. Staðan í hálfleik 43 – 38.
Þórsarar komust yfir eftir rúmar tvær mínútur í þriðja leikhluta í fyrsta skipti í leiknum, Njarðvíkingar svöruðu strax og leikurinn var í járnum næstu mínúturnar. Síðustu mínútur leikhlutans voru gestirnir betri og héldu forystunni út leikhlutann. Staðan fyrir fjórða leikhluta 56 – 59.
Njarðvíkingurinn Ólafur Helgi byrjaði fjórða á að jafna leikinn og Nikolas Tomsick svaraði strax fyrir Þórsarana. Leikurinn var í járnum, Þór leiddi og Njarðvík nartaði í þá. Njarðvíkingar komust svo yfir þegar 2 mínútur voru eftir. Allt hníf jafnt og þakið að rifna af Ljónagryfjunni. Að lokum voru það Njarðvíkingar sem kláruðu leikinn. Lokatölur 82 – 76.
Byrjunarlið:
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Jeb Ivey, Kristinn Pálsson, Maciek Baginski og Mario Matasovic.
Þór Þorlákshöfn: Kinu Rochford, Nikolas Tomsick, Jaka Brodnik, Halldór Garðar Hermansson, Emil Karel Einarsson.
Þáttaskil:
Í jöfnum leik skiptir öllu að geta klárað leikinn og það gerðu Njarðvíkingar vel í kvöld.
Tölfræðin lýgur ekki:
Þrátt fyrir hæðamun og mikinn styrk inn í teig, náðu Þórsarar ekki að nýta sér það og allt var hnífjafnt í fráköstum.
Hetjan:
Kinu Rochford var bestur Þórsara með 20 stig og 8 fráköst. Jeb Ivey og Elvar Már Friðriksson voru bestir hjá heimamönnum með 19 og 18 stig.
Kjarninn:
Hvorugt lið átti frábæran dag í kvöld og voru greinilega í smá lægð eftir góða sigra í síðasta leik. En Njarðvíkingar gerðu vel að klára leikinn og tryggja sér með því áframhaldandi veru í toppsætinu. Þórsarar sem eru ekki að leita djúpt á bekkinn áttu í villuvandræðum síðustu mínúturnar þar sem bæði Emil og Kinu fóru af velli með 5 villur.
Viðtöl: