Njarðvík tók á móti Grindavík í Dominos deild karla í Njarðtaksgryfjunni í kvöld. Nágrannaslagur af bestu sort og mikið undir hjá báðum liðum.
Fyrsti leikhluti var jafn og spennandi, Njarðvík var yfir nánast allan leikhlutann en Grindvíkingar þétt á hæla þeirra. 12 leikmenn komust á blað, 6 hjá hvoru liði, staðan eftir fyrsta leikhluta 20 – 19 heimamönnum í vil.
Grindvíkingar komu miklu skarpari til leiks í öðrum leikhluta og áttu frábæran 2 – 16 kafla fyrstu 4 mínúturnar. Dagur Kár meiddist um miðbik leikhlutans, leit ekki vel út, hann spilaði ekki meira. Slæmt fyrir gestina, hann var búin að setja 4 þrista, í fjórum skotum, stigahæstur á vellinum og virtist í virkilega góðum gír. Grindvíkingar voru þó ekkert á því að pakka saman og fara heim, héldu vel á spilunum og hleyptu heimamönnum ekki nálægt sér. Staðan í hálfleik 35 – 46.
Heimamenn mættu aftur til leiks eftir dapran leikhluta og jöfnuðu leikinn 51 – 51 um miðjan leikhlutann. Njarðvíkingar voru ekki hættir, komust í 62 – 51 með 24 – 0 kafla. Grindvíkingar tóku þá gott leikhlé og kláruðu í kjölfarið leikhlutann vel. Staðan eftir þriðja leikhluta 62 – 56.
Mikill kraftur var í báðum liðum í fjórða leikhluta. Grindvíkingar eltu Njarðvíkinga fram á síðustu sekúndu í mjög jöfnum og spennandi leikhluta. Lokatölur 81 – 78 heimamönnum í vil.
Byrjunarlið:
Njarðvík: Rodney Glasgow,Antonio Hester, Jón Arnór Sverrisson, Logi Gunnarsson og Mario Matasovic.
Grindavík: Eric Julian Wise, Kristófer Breki Gylfason, Dagur Kár Jónsson, Kristinn Pálsson og Joonas Jarvelainen.
Hetjan:
Það er erfitt að gera upp á milli Mario Matasovic, Hester og Glasgow, þeir áttu allir mjög góðan leik.
Kjarninn:
Wise átti ekki góðan leik og Dagur Kár sem var að stefna í frábæran leik meiddist snemma. Hvorugt gott fyrir gestina úr Grindavík. Njarðvíkingar tóku stjórnina og náðu að halda henni og tryggja sér sigur.
Viðtöl:
Mario Matasovic
Einar Árni Jóhannsson
Daníel Guðni Guðmundsson