Njarðvíkingar lönduðu bikarmeistaratitli í drengjaflokki í dag með öruggum 79:64 sigri á liði FSu. Sigurinn var fyllilega verðskuldaður og lið Njarðvíkinga einfaldlega númeri of stórt fyrir Menntskælingaliðið frá Selfossi.
Leikurinn var aðeins jafn fyrstu mínúturnar en fljótlega fór að myndast munur á liðunum þegar Njarðvíkingar settu í annan gír. Sveinn Valdimarsson skoraði hinsvegar fyrstu stig leiksins fyrir FSu og var það eina skiptið sem þeir komust yfir í leiknum. Maciej Baginski var hinsvegar nokkrum sekúndum síðar búin að koma þeim grænu yfir með þrist. Staðan var 21:11 eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta var leikuinn nokkuð jafn og skiptust liðin nánast á því að skora þó svo að Njarðvíkingar væru alltaf í bílstjórasætinu. Það skipti litlu máli hverjir komu inná hjá Njarðvíkingum, allir lögðu sig 100% fram og sást það vel þegar leikmenn voru tilbúnir að fórna sér í skutlur á lausa bolta. Valur Orri Valsson var í algerum sérflokki hjá FSu í þessum leik og sýndi á köflum ótrúlega takta. En kappinn þurfti svo sannarlega að vinna fyrir sínu því leikmenn Njarðvíkur sýndu þessum fyrrum félaga sínum enga miskun.
Þrátt fyrir að Njarðvíkingar hafi landað nokkuð öruggum sigri þá var leikurinn nokkuð jafn ef undan sé skilinn fyrsti fjórðungur. Hjá Njarðvík var Óli Ragnar Alexandersson að sýna óhemju góða baráttu anda sem smitaði út frá sér. Óli skilaði 26 stigum og hirti 10 fráköst sem einnig skilaði honum titlinum besti maður leiksins og var stráksi vel að því kominn. Þarna er á ferðinni hörku mannskapur hjá þeim Njarðvíkingum og þurfa þeir ekki að hafa stórar áhyggjur af framtíðinni ef þessi piltar skila sér í meistaraflokk þeirra á næstu árum.