spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNjarðvík betri allan tímann í Ásgarði

Njarðvík betri allan tímann í Ásgarði

Stjörnumenn tóku á móti ríkjandi deildarmeisturum Njarðvíkur í fjórðu umferð Subway-deildar karla í gær, í Ásgarði. Fyrir leik höfðu bæði lið unnið tvo leiki og tapað einum.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn mun betur á báðum endum vallarins. Stjörnumenn urðu fyrir áfalli strax eftir tveggja mínútna leik þegar litháíski miðherjinn Julius Jucikas missteig sig og fór haltrandi út af. Svo fór að Jucikas kom ekki aftur inn á í leiknum. Njarðvíkingar gengu á lagið og höfðu átján stiga forskot í hálfleik, 30-48, eftir hreint skelfilega sóknarframmistöðu Garðbæinga, sem settu ekki eitt einasta þriggja stiga skot niður úr 15 tilraunum.

Þá forystu létu gestirnir aldrei af hendi, og voru Stjörnumenn aldrei sérstaklega líklegir til að saxa á forskot Njarðvíkur. Að lokum unnu gestirnir öruggan 21 stigs sigur, 67-88.

Oddur Kristjánsson var stigahæstur hjá Njarðvík með 20 stig en hjá Stjörnunni var Robert Turner III með 19.

Næsti leikur Stjörnunnar er á útivelli gegn Tindastóli, fimmtudaginn 3. nóvember n.k. en degi síðar taka Njarðvíkingar á móti Grindavík í Suðurnesjaslag.

Fréttir
- Auglýsing -