Njarðvík tók á móti Keflavík í IceMar-höllinni í kvöld í þriðja leik undanúrslitarimmunnar milli liðanna í Bónus deild kvenna. Njarðvík átti möguleika á að sópa Keflavík en Keflvíkingar ætluðu sér augljóslega ekki að leyfa það.
Íslandsmeisturunum frá því í fyrra var hins vegar sópað út af nágrönnum sínum nokkuð snyrtilega þegar leiknum lauk 101-89, Njarðvík í vil.
Gangur leiks
Keflavík hóf leikinn af afli og náðu fyrstu tveimur körfunum áður en Njarðvíkingar svöruðu fyrir sig. Orkan í gestunum var augljóslega meiri en heimaliðið virtist taka því með stóískri ró, allavega framan af. Brittany Dinkins, sem hafði meiðst í seinasta leik liðanna, leit ekki út fyrir að vera kveinka sér mikið og hafði skorað sjö stig eftir aðeins 4 mínútur. Jasmine Dickey var allt í öllu á hinum enda vallarins og skoraði 14 stig í fyrsta leikhlutanum úr engu nema tveggja stiga skotum og sniðskotum. Gestirnir úr Keflavík gátu samt ekki alveg stigið skrefið til fulls og tekið afgerandi forystu. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var því 27-22 fyrir Njarðvík.
Í öðrum leikhlutanum fóru heimakonur aðeins að loka betur á Keflavík varnarlega og tóku gott áhlaup sem jók muninn í 13 stig (40-27) áður en fimm mínútur voru liðnar af . Þá ákvað Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur að taka leikhlé og breyta nokkrum hlutum. Keflavík setti í öðruvísi pressu, skiptu í hálfgerða svæðisvörn og fóru að láta finna meira fyrir sér með fastari vörn. Njarðvíkingar duttu aðeins úr gírnum vegna þess og áttu í mesta basli með að skora.
Keflavík gekk á lagið og náði 13-2 áhlaupi áður en þjálfari Njarðvíkur, Einar Árni Jóhannsson, tók leikhlé. Brittany tók sig til og skoraði í næstu sókn og liðin skiptust á körfum það sem eftir lifði af fyrri hálfleiknum.
Jasmine Dickey tók mjög slaka ákvörðun á lokasekúndum hálfleiksins þegar hún fékk þriðju villuna dæmda á sig þegar hún krafsar í boltann eftir varnarfrákast hjá Njarðvík. Hún gerði svipaða villu í leik 2 og þessi villa var alveg jafn illa hugsuð. Hún fór því inn í hálfleikinn með þrjár villur.
Staðan 46-44 í hálfleik, Njarðvík í vil.
Fyrsta sókn seinni hálfleiksins hófst með þristi frá Thelmu Dís sem gaf Keflavík forystuna og gestastúkan trylltist. Það stóð ekki lengi því Njarðvík skoraði strax í næstu sókn eftir sóknarfrákast hjá Emilie Hesseldal. Á meðan var Keflavík að klikka á vítaskotum og leyfa einfaldar körfur hjá heimakonum. Þær bláklæddu voru aldrei langt undan, en það virtist vanta eitthvað upp á hjá þeim til að ná yfirhöndinni í leiknum. Njarðvík hafði alltaf tökin og skoraði stundum án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því.
Jasmine Dickey lenti oft á bakinu á Paulinu Hersler og vegna þess að hún var í villuvandræðum þá gat hún ekki beitt sér almennilega gegn miðherjan sænska. Paulina skoraði 10 af sínum 30 stigum í þriðja leikhlutanum og gerði Keflavík lífið leitt raunar allan leikinn.
Í lok þriðja leit út eins og Keflavík væri að komast inn í leikinn með nokkrum hröðum sóknum en þá tók Brittany Dinkins sig til og skoraði nokkrar körfur í röð, þ.á.m. flautuþrist í lok fjórðungsins. Hún hélt síðan uppteknum hætti í lokafjórðungnum. Þetta gerði hún allt þrátt fyrir að hafa ekki náð að æfa milli leikja vegna meiðsla sinna. Emilie Hesseldal var þar mjög mikilvæg en hún tók boltann upp gegn pressu Keflvíkinga stóran hluta leiksins sem gerði Dinkins kleift að ná aðeins andanum.
Njarðvík hélt áfram að hamra járnið og í stöðunni 91-77 með rúmar fimm mínútur til leiksloka tók þjálfari Keflavíkur, Sigurður Ingimundarson, leikhlé. Nú var að duga eða drepast hjá Keflavík. Allt kom þó fyrir ekki. Staðan breyttist lítið og þrátt fyrir nokkra þrista niður hjá gestunum á lokasprettinum þá höfðu Njarðvíkingar alltaf svör á reiðum höndum.
Lokastaðan í leiknum var 101-89, Njarðvíkingum í vil.
Tölfræði leiksins
Vendipunkturinn
Leikurinn snerist í þriðja leikhlutanum, af ýmsum ástæðum. Njarðvík náði smá forskoti og hélt því og á sama tíma dró aðeins úr ákafanum hjá Keflavík. Það má vera að þriðja villa Dickey hafði gert útslagið. Vegna þess að hún gat ekki beitt sér varnarlega (og Sara Rún ekki heldur sem var á þremur villum líka mest allan þriðja leikhlutann) þá opnaðist á allt of mikið hjá Njarðvík og því fór sem fór.
Atkvæðamestar
Hjá Njarðvík var Brittany Dinkins atkvæðamest með 36 stig, 7 fráköst og 12 stoðsendingar. Þær skandinavísku, Emilie Hesseldal og Paulina Hersler, voru líka mjög mikilvægar fyrir þennan sigur. Paulina skoraði 30 stig og tók 8 fráköst á meðan að Emilie fyllti tölfræðiblaðið meira á báðum endum vallarins. Emilie skoraði ekki mikið (3 stig) en tók þess í stað 16 fráköst, gaf fjórar stoðsendingar, stal nokkrum boltum og varði eitt skot. Hún tók líka boltann upp gegn Keflavík og hvíldi þannig Brittany Dinkins.
Það má hins vegar ekki gleyma ungu íslensku stelpunum sem komu með mikilvægar körfur inn á milli sem gerði að verkum að Keflvíkingar gátu ekki skilið þær eftir og hjálpað á erlendu leikmennina þrjá hjá Njarðvík.
Í Keflavíkurliðinu var Jasmine Dickey allt í öllu með 37 stig, 14 fráköst, 2 stolna bolta og 1 varið skot. Sara Rún Hinriksdóttir lagði líka til 20 stig en aðrar voru með minna. Áhugaverða tölfræði mátti sjá hjá Kötlu Rún Garðarsdóttur, sem spilaði aðeins 9 mínútur í leiknum en var eini leikmaður Keflavíkur með jákvætt plús/mínus (+10 í stigaskori hjá Keflavík meðan hún var inn á).
Kjarninn
Njarðvík átti skilið að vinna þennan leik og þessa séríu enda með betra samsett lið og leikmenn. Þær höfðu tögl og haldir nærri því alla leikhluta séríunnar og fara núna í vonandi spennandi úrslitaséríu gegn Haukum, sem sópuðu líka sinni undanúrslitaséríu.
Það hlýtur að gefa Njarðvíkingum eitthvað aðeins auka að hafa sópað Íslandsmeisturunum sem sópuðu þeim í úrslitarimmunni í fyrra.
Keflavík hefur átt vonbrigða tímabil, þær hafa ekki fundið taktinn almennilega, valið vitlausa erlenda leikmenn fyrir liðið, skipt um þjálfara og alltaf virtist vanta eitthvað til að Íslandsmeistararnir í fyrra næðu flugi. Nú þurfa þær bara að taka sumarið í að laga nokkra hluti og koma betri inn í næsta tímabil.