Njarðvík hafði baráttusigur á Val í Domino´s-deild karla í kvöld. Lokatölur 85-80 í Ljónagryfjunni. Valsmenn voru sprækari aðilinn í fyrri hálfleik en í þriðja leikhluta fóru heimamenn í Njarðvík á kostum og lögðu grunninn að sigri sínum í leiknum. Njarðvíkingar tróna nú á toppi Domino´s-deildar karla ásamt Tindastól, bæði með þrjá sigra í fyrstu þremur leikjunum en þessi lið mætast einmitt í fjórðu umferð.
Myndasafn
Tölfræði leiksins
Viðtöl við Maciej Baginski, Njarðvík og Benedikt Blöndal, Val eru hér neðar
Það helsta…
Valsmenn fóru vel af stað, leiddu 19-22 eftir fyrsta leikhluta og 37-44 í hálfleik. Aleks Simeonov var drjúgur í fyrri hálfleik fyrir Val og Illugi Steingrímsson kom flottur af bekknum. Í þriðja leikhluta settu heimamenn í fluggír, unnu leikhlutann 29-13 með Loga og Maciej í broddi fylkingar og leiddu því 66-57 fyrir fjórða leikhluta. Gestirnir af Hlíðarenda létu ekki henda sér út úr leiknum, minnkuðu muninn í 83-80 þegar minna en mínúta lifði leiks en Njarðvíkingar stýrðu sigrinum í höfn 85-80.
Tölfræðin
Hann vildi ekki detta í kvöld hjá Val, 4-28 í þristum og þar var Simeonov helst til of mikið að þröngva þristunum, 1-8 í kvöld en hann var mun skeinuhættari í námunda við körfuna og hefði betur starfað meira á þeim vettvangi.
Þriðji leikhluti
Njarðvíkingar opnuðu þriðja leikhluta 9-0 og 17-2. Logi Gunnarsson og Maciej Baginski voru prímusmótorar að þessari siglingu á meðan Valsmenn voru heillum horfnir. Þriðji leikhluti fór 29-13 og Njarðvíkingar gáfu ekki mikið færi á sér eftir það.
Bestu innkomur kvöldsins af bekknum:
Ólafur Helgi Jónsson og Jón Arnór Sverrisson, Njarðvík, Illugi Steingrímsson og Benedikt Blöndal, Valur.
Staðan
Eftir leik kvöldsins eru Njarðvíkingar á toppi deildarinnar með Tindastól en Valsmenn á botninum án stiga. Eitthvað segir greinarhöfundi að það sé ekki langt að bíða þess að Valsmenn finni sín fyrstu stig, virkilega sterkar rispur á köflum hjá þeim í kvöld. Njarðvíkingar að sama skapi eru á leið í svakalegan toppslag gegn Tindastól í næstu umferð.
Gangur leiksins:
19-22, 37-44, 66-57, 85-80
Viðtal: Benedikt Blöndal
Viðtal: Maciej Baginski
Punktar:
Iðkendur úr yngri flokkum Njarðvíkur tóku virkan þátt í upphitun fyrir leik og settu skemmtilegan svip á leikinn en það var þétt setið í áhorfendastúkunni í kvöld.
Aleks Simenov byrjaði vel í liði Vals með 10 stig og 7 fráköst í fyrsta leikhluta.
Valsmenn buðu upp á sterkan varnarleik í öðrum leikhluta og héldu Njarðvík í aðeins 9 stigum á fyrstu sjö mínútum leikhlutans þar sem Illugi Steingrímsson kom hrikalega sterkur inn hjá Val á báðum endum vallarins.
Aleks Simeonov var stigahæstur hjá Val í hálfleik með 12 stig og 8 fráköst en Maciek Baginski og Ólafur Helgi Jónsson voru báðir með 9 stig í liði Njarðvíkinga.
Njarðvík opnaði þriðja leikhluta 17-2! Eitthvað hefur gengið á inni í klefa. Njarðvik vann þriðja 29-13 og lagði þar með sterkan grunn að sigri sínum í leiknum.
Valsmenn gerðu vel að komast aftur nærri Njarðvík 83-80 þegar 40 sekúndur lifðu leiks en skaðinn var þegar skeður í þriðja leikhluta og Njarðvík fagnaði sigri eins og áður greinir.