spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNjarðvík á toppinn eftir öruggan sigur í Origo Höllinni

Njarðvík á toppinn eftir öruggan sigur í Origo Höllinni

Njarðvík lagði heimamenn í Val í kvöld í Origo Höllinni í Subway deild karla, 69-88. Eftir leikinn er Njarðvík í efsta sæti deildarinnar, með innbyrðis á Keflavík og Þór sem bæði eru einnig með 20 stig á meðan að Valur er í 4. sætinu með 14 stig og tvo leiki til góða á toppliðin.

Fyrri leikur

Njarðvík hafði nokkuð öruggan sigur á Val í fyrri viðureign liðanna í Ljónagryfjunni þann 22.október, 96-70.

Gangur leiks

Heimamenn í Val byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Ná mest 12 stiga forystu á upphafsmínútunum, sem Njarðvík tekst þó nánast að þurrka út fyrir enda fyrsta fjórðungsins, en hann endar 21-18. Valsmenn eru áfram skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum, eru fimm til tíu stigum á undan mest allan annan fjórðunginn, en líkt og í þeim fyrsta nær Njarðvík að bíta frá sér undir lokin. Staðan 39-38 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Kristófer Acox með 11 stig á meðan að fyrir Njarðvík dró Nicolas Richotti vagninn með 9 stigum.

Seinni hálfleikinn hefja Njarðvíkingar af miklum krafti á báðum endum vallarins. Setja 29 stig á heimamenn í þriðja leikhlutanum, leyfa aðeins 15 og eru því 13 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 54-67. Í upphafi þess fjórða nær Valur ágætisáhlaupi sem kemur þeim 9 stigum næst Njarðvík. Njarðvík svarar því þó og siglir að lokum mjög svo öruggum 19 stiga sigur í höfn, 69-88.

Kjarninn

Njarðvík náði að stjórna hraða leiksins í seinni hálfleiknum í kvöld og það var mikið til af þeim sökum að þeir náðu í þennan sigur. Valsmenn hingað til verið lang hægasta lið deildarinnar sem hentar betur að setja upp á hálfum velli heldur en að hlaupa mikið á meðan að Njarðvík hafa verið með hraðari liðum.

Tölfræðin lýgur ekki

Njarðvíkingum gekk vel að passa boltann í leik kvöldsins, eru með aðeins 13 tapaða á móti 23 töpuðum boltum Vals.

Atkvæðamestir

Dedrick Basile var framlagshæstur í liði Njarðvíkur í kvöld með 16 stig og 8 stoðsendingar. Þá var Nicholas Richotti einnig með 23 stig.

Fyrir Val skilaði Kristófer Acox 18 stigum, 8 fráköstum og Pablo Bertone bætti við 16 stigum og 5 stoðsendingum.

Hvað svo?

Næsti leikur Njarðvíkur er komandi föstudag 4. febrúar gegn KR í Ljónagryfjunni á meðan að Valur leikur gegn Vestra á Ísafirði degi fyrr, fimmtudag 3. febrúar.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -