spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaNjarðvík á toppi 1. deildar eftir spennusigur gegn ÍR

Njarðvík á toppi 1. deildar eftir spennusigur gegn ÍR

Njarðvíkurkonur sitja á toppi 1. deildar kvenna eftir sigur á ÍR í Njarðtaks-gryfjunni í dag. Heimakonur voru við stýrið allan leikinn þó gestirnir væru ekki langt undan. Lokatölur 68-67 Njarðvík í vil eftir æsispennandi lokasprett þar sem ÍR gafst færi á því að stela sigrinum en Njarðvík hélt áhlaupið út.

Njarðvíkingar brutust út á völlinn með látum og leiddu 23-9 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Vilborg Jónsdóttir og Erna Freydís Traustadóttir fóru fyrir heimakonum. Gestirnir úr Breiðholti bitu frá sér í öðrum leikhluta og unnu hann 18-22 svo Njarðvíkingar leiddu 41-31 í hálfleik.

Jóhanna Lilja Pálsdóttir tók vel við sér í liði Njarðvíkinga í þriðja leikhluta og hitti vel fyrir utan, leikhlutinn fór 14-14 og staðan 55-45 fyrir fjórða og síðasta hluta. Í þeim fjórða fór ÍR hægt og bítandi að nálgast Njarðvík, varnarleikur gestanna þéttist með hverri mínútunni og ÍR náði að minnka muninn í 64-60 þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og upphófst svakalegur lokasprettur.

Sólrún Sæmundsdóttir kom ÍR yfir 66-67 með þrist þegar 24 sekúndur lifðu leiks en Jóhanna Lilja Pálsdóttir gerði sigurstig leiksins af vítalínunni 68-67 þegar hún náði frákasti eftir sitt eigið þriggja stiga skot og brotið var á henni. Jóhanna var svellköld á vítalínunni og kláraði leikinn þar sem lokasókn ÍR gaf ekki körfu.

Jóhanna Lilja Pálsdóttir var stigahæst hjá Njarðvík í dag með 17 stig og Vilborg Jónsdóttir bætti við 16 stigum og 8 stoðsendingum. Hjá ÍR var Nína Jenný með 19 stig og 6 fráköst og Birna Eiríksdóttir með 11 stig.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -