Subwaydeildarlið Hauka og Hamars karlamegin áttust við í Ólafssal í kvöld og voru það Haukarnir sem héldu í sigurinn undir lokin eftir blómstursleik frá Osku Heinonen og þrennu frá Jalen Moore. Þeir unnu leikinn 98-91
Gangur leiks
Leikurinn byrjaði frekar jafn og Haukarnir skriðu örlítið fram úr gestunum, en sóknarvilla frá Breka Gyfasyni virtist snúa hlutunum við fyrir Hamrana og enduðu þeir leikhlutann 16-18. Hilmir Arnarsson, nýr leikmaður Hauka byrjaði frekar illa og fékk á sig þrjár villur fyrir fimmtu mínútu leiksins.
Áfram hélt seigla Hamars og komust þeir í tíu stiga forskot. Ekki var hins vegar aftur snúið eftir seinna leikhlé Matés fyrir Haukana og skelltu þeir í 16-5 rönn, þar sem þeir fengu hjálp úr þremur þristum frá Osku Heinonen. Hann endaði leikhlutann hafandi skorað 15 stig, öll fyrir utan þriggja stiga línuna. Sífellt boltatap varð Hamri að bana í leikhlutanum þar sem Halldór, þjálfari Hamars neyddist til að taka tvö leikhlé á innan við mínútu. Staðan í leikhlutanum var 25-8 fyrir heimamönnum.
Þriðji leikhlutinn var fremur jafn framan af en Haukarnir stækkuðu forskot sitt hægt og rólega, og enda leikhlutann með 13 stiga forskot.
Hamar byrjaði loka leikhlutann á 13-5 áhlaupi, sem var stutt af nokkrum suddalegum þristum frá manninum sem var stór hluti af sigri Hauka í fyrstu deildinni fyrir tveimur árum, Jose Medina. Ekki nægði það til og með aðeins 20 sekúndur eftir og 9 stiga mun áttuðu Hamar sig á því að öll von væri úti um sigur, meðal annars af því að þeir höfðu ekkert brotið allan leikhlutann, og áttu því erfitt með að senda menn á vítalínuna.
Leikmenn leiksins
Osku Heinonen var annar af mönnum leiksins með 9 þrista og 29 stig, en hinn var Jalen Moore, einnig Haukari, sem náði þrennu með 19 stig, 10 fráköst og 12 stoðsendingar.