Þær Nína Jenný Kristjánsdóttir og Hrafnhildur Magnúsdóttir voru sáttar eftir góðan 66-59 sigur á Ármanni í kvöld í Hertz-hellinum.
Nína Jenný og Hrafnhildur komu báðar yfir til ÍR frá Val á seinasta ári í upphafi tímabilsins. Þær eru báðar mjög efnilegar og hafa verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum sínum fyrir ÍR. Nína Jenný er 188 sm miðherji liðsins og verður 22 ára á árinu á meðan að Hrafnhildur Magnúsdóttir er heldur lágvaxnari leikstjórnandi liðsins og verður 21 árs á morgun, 7. febrúar. Til hamingju með það!
"Við bara vorum eins og algerir ormar þarna inn á vellinum." sagði Hrafnhildur Magnúsdóttir eftir mjög svo sveiflukenndan leik, en Ármenningar leiddu með 8 stigum í hálfleik eftir afleitan annan leikhluta hjá ÍR-ingum. Nína Jenný Kristjánsdóttir tók í sama streng og liðsmaður hennar og sagði að eldræða þjálfarans hefði verið ansi góð í búningsklefanum milli fyrri og seinni hálfleiks. "Hann sagði okkur bara að hætta að spila eins og algerar tussur og að mæta almennilega til leiks." sagði hún og þær hlógu báðar yfir því, enda dugði það vel til að kveikja í þeim, en ÍR-ingar áttu stigahæsta leikhluta sinn á tímabilinu eftir hálfleikshléið, 29 stig.
Áður en næsta spurning kom beið glaðningur fyrir aftan þær Nínu Jennýju og Hrafnhildi, en liðsmenn þeirra voru svo góðar að gefa þeim smá vatn í viðtalinu, þó að lítið af því hafi reyndar ratað upp í þær. Hrafnhildur hefur að sögn innanbúðarmanna fengið gælunafnið "Ormurinn" hjá liðinu en hún gat ekki upplýst um tildrög þess. Nína Jenný hafði samkvæmt heimildum blaðamanns ekki enn fengið gælunafn en Hrafnhildur leiðrétti þá staðreyndarvillu; "Við erum með það, sko. Það er Maskínan."
Þeim fannst liðið spila vel í kvöld, "það voru allar að leggja allt í þetta" og þær voru helsáttar með að hafa "hætt að spila eins og tussur og að hafa klárað leikinn."
Hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.