Fyrr í dag fékk Karfan staðfestingu þess efnis að Nick Tomsick hefur samið við Tindastól um að spila með þeim á næsta tímabili. Hann fékkst til að tjá sig um fréttirnar í snörpu viðtali.
Nick Tomsick hefur verið einn fremsti leikmaður úrvalsdeildar karla seinustu tvö árin. Nick leiddi deildina 2018-2019 í skoruðum stigum og stoðsendingum þegar hann spilaði með Þór Þorlákshöfn. Hann var mikilvægur fyrir Þórsara í úrslitakeppninni þegar þeir slógu út Tindastól í ótrúlegum oddaleik á Sauðárkróki í 8-liða úrslitunum 2019.
Þjálfari Tindastóls þekkir vel til Tomsick, enda spilaði Nick fyrir Baldur Þór þjálfara þegar þeir voru báðir hjá Þór Þorlákshöfn á þar seinasta ári. Það tímabil voru þeir Nick Tomsick og Jaka Brodnik sömuleiðis liðsfélagar, en Brodnik fylgdi Baldri norður á Sauðárkrók. Þeir munu því spila aftur saman, enda er Jaka samningsbundinn á næsta ári sömuleiðis og unir sér vel í Tindastóli.
Nick kvaðst vera mjög spenntur að vera að spila aftur fyrir Baldur og með Jaka og að þeir hafi búið eitthvað mjög sérstakt til fyrir tveimur tímabilum síðan. “Ég er sannfærður um að getum búið eitthvað sérstakt til aftur á nýjan leik,” sagði Tomsick um nýja verkefnið fyrir norðan.
Hann sparar heldur ekki hrósið á fyrrum lið sitt og liðsmenn hjá Stjörnunni. “Ég elskaði að spila fyrir Stjörnuna. Þetta var eitt af skemmtilegustu tímabilunum sem ég hef upplifað hingað til á ferlinum mínum! Allir í félaginu voru æðislegur og ég er mjög þakklátur fyrir reynsluna sem ég öðlaðist þar. Ég vildi bara að við hefðum getað klárað það,” sagði hann en eins og flestum er kunnugt gafst Stjörnunni ekki tækifæri á að reyna við Íslandsmeistaratitilinn vegna samkomubannsins.
Hann spilaði tímabilið 2019-2020 fyrir Stjörnuna þar sem hann varð deildarmeistari og bikarmeistari og leiddi liðið sitt í stigaskori með 20,1 stig að meðaltali í leik. Skotnýtingin hans var ekki af verri endanum og hann nýtti 45,8% allra skota sinna utan af velli á ný afstöðnu tímabili, þ.a. 39,2% í þristum.
Það er eilítið skrítið að hugsa til þess að Tomsick hefur nokkrum sinnum verið þyrnir í síðu Tindastóls, en hann átti stóran þátt í að gera úti um titilvonir þeirra bæði í 8-liða úrslitunum 2019 og í Geysis-bikarnum 2020.
„Ég er spenntur að spila fyrir enn og aftur fyrir félag sem er reiðubúið að leggja allt í sölurnar fyrir titil og vona að ég geti hjálpað þeim að ná því markmiði,“ segir hann og bætir við að heimavöllurinn þeirra sé góður og áhorfendur flottir. „Mér finnst nú þegar gott að spila á heimavellinum þeirra,“ segir hann glettnislega að lokum.