Tveir leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt, New York Knicks mættu í gin ljónsins og voru hvergi bangnir er þeir lögðu meistara Miami 92-112 í American Airlines Arena. New York léku án Carmelo Anthony sem glímir við meiðsli í fingri. Stuðningsmenn Miami ættu svo sem að vera orðnir vanir því núna að stórstjörnurnar mæti ekki til Miami eins og frægt varð á dögunum þegar ,,Pop” gamli skildi hálft Spurs liðið eftir heima.
Þrátt fyrir að LeBron James (31/10/9) hafi verið aðeins stoðsendingu frá þrennunni í nótt tókst New York engu að síður að vinna meistarana sannfærandi. Þetta var fyrsta tap Heat á heimavelli og það rigndi þristum yfir heimamenn. Raymond Felton skellti sex þristum yfir meistarana og lauk leik með 27 stig og 7 stoðsendingar en Knicks gerðu alls 18 þrista í Miami!
Phoenix 94-97 Dallas
O.J. Mayo var stigahæstur í liði Dallas með 23 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar en hjá Phoenix voru tveir með 15 stig, þeir Goran Dragic og Markieff Morris en hann var með tröllatvennu þar sem hann reif einnig niður 17 fráköst.