Nú taka margir gleði sína á ný þar sem keppni í NBA deildinni hefst í kvöld. Stern og félagar vestanhafs vita hvernig á að opna svona vertíð enda mætast meistarar Miami Heat og Boston Celtics í kvöld. Þriggjastiga goðsögnin Ray Allen tekur þá á móti gömlu félögunum sínum í Boston Celtics en hann sagði skilið við félagið í sumar og gekk í raðir meistara Miami.
Leiktíðin hefst með þremur leikjum í kvöld þar sem mætast Miami og Boston, Cleveland tekur á móti Washington og LA Lakers fá Dallas Mavericks í heimsókn.
Róstursamt hefur verið víða, James Harden fór frá Oklahoma og gekk til liðs við Houston Rockets og þangað kom einnig spútnikmaður síðustu leiktíðar, Jeremy Lin. Ofurmennið Dwight Howard og Steve Nash gengu í raðir LA Lakers. New Orleans Hornets fengu til sín, í gegnum fyrsta valrétt, Anthony Davis sem vann gullið í London með bandarísku sveitinni.
Það er því af nógu að taka og fyrir áhugasama sem vilja kynna sér magnaða þjónustu hjá NBA er League Pass góður kostur.