spot_img
HomeFréttirNBA spáin - Atlanta Hawks - Á byrjunarreit

NBA spáin – Atlanta Hawks – Á byrjunarreit

Þessi spá er hluti af spá Körfunnar fyrir tímabilið 2018-2019

Atlanta Hawks

Heimavöllur: State Farm Arena
Þjálfari: Lloyd Pierce

Helstu komur: Trae Young, Vince Carter
Helstu Brottfarir: Mike Budenholzer, Dennis Schröder, Carmelo Anthony

 

Það er hætt við því að veturinn verði langur hjá stuðningsmönnum Atlanta Hawks, sérstaklega ef þeir hafa gert sér einhverjar grillur um marga sigurleiki. Það væri þó óskynsamlegt, Hawks eiga valréttinn sinn í fyrstu umferð nýliðavalsins á næsta ári þar sem til að mynda er að finna þá Duke-bræður Zion Williamsson og RJ Barrett. Í vetur verður þeirra maður Trae Young. Ungstirnið úr Oklahoma háskólanum sem heillaði marga á síðasta tímabili með frábærum töktum.

 

Styrkleikar liðsins eru fáir. Næstum engir. Þjálfarinn er óskrifað blað sem og flestir leikmenn liðsins. Kannski tekst Pierce að fá liðið til þess að spila hraðann bolta þar sem Trae Young mun fá að njóta sín og vonandi tekst Jeremy Lin að koma sér á völlinn aftur, það gæti hjálpað Young að finna fæturna sína.

Veikleikar liðsins eru á báðum endum vallarins. Dwayne Dedmon gæti þó hjálpað liðinu eitthvað varnarlega svo að þeir gætu orðið örlítið skárri varnarmegin en sóknarmegin. Það breytir því þó ekki að þetta Atlana lið verður eitt af þrem verstu liðum deildarinnar.

Fylgstu með: Trae Young. Strákurinn var einn al-dýnamískasti skorari háskólaboltans í fyrra og er þar að auki bæði viljugur og skemmtilegur sendingamaður.

 

Stuðningsmaðurinn segir:

Ég er spenntur að sjá hvernig Atlanta munu spila undir stjórn Lloyd Pierce og hvort það verði miklar breytingar í spilamennsku liðsins. Verður gaman að sjá þróunina hjá John Collins og Taureen Prince hvort þeir taki næsta skref á sínum ferli og nái að standa undir þeim væntingum sem gerðar eru til þeirra. Svo er auðvitað sjá hvernig nýliðinn Trae Young kemur inn í NBA þar sem maður heyrir að menn innan Hawks hafa mikla trú á honum. Er einnig mjög spenntur að sjá reynsluboltana Carter og Jeremy Lin í Hawksbúningnum og vona að maður fái að sjá eitthvað frá þeim í vetur.

-Sigurður Heiðar Baldursson

 

Spáin: 19 – 63. 15. sæti í Austurdeildinni

Fréttir
- Auglýsing -