10:35
{mosimage}
(Iverson sallaði niður 31 stigi í nótt)
Óhætt er að segja að nokkuð óvænt úrslit hafi dúkkað upp í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í NBA deildinni í nótt. Bæði Dallas og San Antonio töpuðu sínum fyrstu leikjum á heimavelli. Denver Nuggets lagði San Antonio 89-96 og Golden State Warriors lögðu Dallas 85-97. Þá tók Phoenix 1-0 forystu gegn Lakers og Cleveland sömuleiðis gegn Washington.
Þeir Allen Iverson og Carmelo Anthony gerðu samtals 61 stig í nótt þegar Denver lagði San Antonio á heimavelli Spurs. Lokatölur leiksins voru 89-96 Denver í vil þar sem Allen Iverson gerði 31 stig og gaf 5 stoðsendingar en Carmelo Anthony gerði 30 stig og tók 8 fráköst fyrir Denver. Leikurinn var jafn og spennandi en Denver reyndust sterkari á lokapsrettinum. Hjá Spurs var Tony Parker atkvæðamestur með 19 stig og 8 stoðsendingar.
Önnur óvænt úrslit urðu í nótt þegar Dallas Mavericks tapaði sínum fyrsta leik í úrslitakeppninni gegn Golden State Warriors. Þrettán ár eru síðan Warriors komust síðast í úrslitakeppnina og þær ætla sér ekki að skilja svo auðveldlega við hana. Spurning hvort það hafi verið sniðugt að hvíla Nowitzki og Stackhouse í síðustu deildarleikjunum fyrir úrslitakeppnina? Lokatölur í Dallas í nótt voru 85-97 Golden State í vil þar sem Baron Davis fór á kostum fyrir Warriors með 33 stig, 14 fráköst, 8 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Hjá Dallas var Josh Howard með 21 stig og 13 fráköst.
Phoenix Suns tóku 1-0 forystu gegn LA Lakers eftir 95-87 sigur í US Airways Center í Phoenix. Leandro Barbosa var stigahæstur í liði Phoenix með 26 stig og 5 fráköst en Steve Nash gerði 20 stig og var með 10 stoðsendingar. Phoenix reyndust mun sterkari í fjórða og síðasta leikhlutanaum og unnu hann 21-10 en framan af leik hafði verið nokkuð jafnræði með liðunum. Kobe Bryant var allt í öllu hjá Lakers liðinu með 39 stig og 5 fráköst.
Larry Hughes átti góðan leik fyrir Cleveland í gær sem lagði Washington 97-82 og þar með hefur Cleveland 1-0 yfir í einvíginu. Larry Hughes gerði 27 stig í leiknum og tók 7 fráköst fyrir Cleveland. Antwan Jamison gerði 28 stig og tók 14 fráköst fyrir Wizards en ljóst má vera að liðið frá höfuðborginni saknar Gilbert Arenas sárt. Þá er Caron Butler einnig meiddur í liði Washinton og í fjarveru þeirra tveggja er ekki búist við miklu frá Wizards að þessu sinni.
Mynd/ Photo: AP