10:15
{mosimage}
(Rashard Lewis og Hedo Turkoglu fagna sigurkörfu þess fyrrnefnda)
Það var glatt á hjalla í NBA deildinni í nótt enda fjöldi leikja sem fram fór í deildinni. Dramatíkin lét ekki heldur á sér standa þar sem Carmelo Anthony meiddist, Orlando gerðu flautukörfu gegn Pistons og viti menn… Miami Heat tapaði sínum fjórtánda leik í röð og undrast nú margir að Pat Riley skuli enn halda heilsunni.
Big Shot Chaunsey Billups setti niður ótrúlega þriggja stiga körfu þegar 3,6 sekúndur voru til leiksloka og héldu þá flestir að leikur Orlando og Detroit myndi fara í framlengingu í stöðunni 100-100. Hedo Turkoglu tók innkastið fyrir Magic á miðlínunni og boltinn barst til Rashard Lewis sem brunaði inn fyrir þriggja stiga línuna og náði skoti sem reyndist sigurkarfa leiksins. Dómarar leiksins notuðu sjónvarpsvélarnar til þess að staðfesta að skotið hefði verið gilt, svo reyndist vera og langþráður sigur Magic á Pistons var í höfn, minnugir þess að Pistons sópuðu Magic inn í sumarið á síðustu leiktíð.
Hedo Turkoglu var með 26 stig og 8 stoðsendingar í liði Magic en honum næstur kom Dwight Howard með 23 stig og 8 fráköst. Rip Hamilton gerði 21 stig fyrir Pistons og Rasheed Wallace gerði 15 stig og tók 15 fráköst. Ósigurinn í nótt var þriðji ósigur Pistons á leiktíðinni en það er jafnfram í fyrsta sinn sem það gerist hjá Pistons þetta árið.
LA Lakers höfðu góðan 116-99 heimasigur gegn Denver Nuggets í Staples Center í nótt þar sem Carmelo Anthony meiddist á ökkla eftir að hafa lent á fæti Kobe Bryants. Meol yfirgaf leikinn með 13 stig og 4 fráköst og lék ekki meir. Samkvæmt talsmönnum Denver munu meiðslin ekki vera alvarleg en það ræðst brátt hver meiðslin eru nákvæmlega. Derek Fisher var stigahæstur í liði Lakers með 28 stig en Kobe Bryant gerði 17 stig og gaf 11 stoðsendingar. Allen Iverson var stigahæstur hjá Nuggets með 24 stig og 7 stoðsendingar.
Fjórtándi tapleikur Miami Heat varð staðreynd í nótt þegar LeBron James og félagar í Cleveland lönduðu góðum 90-97 útisigri í American Airlines Arena. Dwyane Wade virtist eini liðsmaður Heat með lífsmarki þar sem hann gerði 18 síðustu stig liðsins í leiknum og var með alls 32 stig í síðari hálfleik. Báðar þessar tölur eru félagsmet hjá Miami. Alls gerði Wade 42 stig í leiknum, gaf 7 stoðsendingar og tók 6 fráköst en það dugði ekki til þar sem liðsfélagar hans voru sérlega slappir, einkum og sér í lagi í síðari hálfleik þar sem þeir hittu aðeins úr 6 af 21 skoti sínu. LeBron James var stigahæstur hjá Cleveland með 28 stig og 5 stoðsendingar. Fyrir leik næturinnar höfðu Cleveland Cavaliers tapað síðustu níu leikjum sínum á heimavelli Miami.
Önnur úrslit næturinnar:
New York Knicks 93-109 Boston Celtics
Washington Wizards 102-84 Dallas Mavericks
Charlotte Bobcats 86-95 San Antonio Spurs
Philadelphia 76ers 103-110 Indiana Pacers
Atlanta Hawks 109-111 Portland Trailblazers
Houston Rockets 96-89 Seattle Supersonics
New Orleans Hornets 106-92 Milwaukee Bucks
LA Clippers 93-109 Utah Jazz
Golden State Warriors 108-109 Minnesota Timberwolves
Memphis Grizzlies 104-90 Chicago Bulls
Mynd: AP