23:30:41
Kurt Rambis, nýráðinn þjálfari Minnesota Timberwolves, hefur ráðið til sín nokkur stór nöfn til að hjálpa sér að stýra hinni löskuðu skútu sem liðið er. Þar á meðal er gamli harðjaxlinn Bill Laimbeer.
Laimbeer hafði gert góða hluti í WNBA deildinni þar sem hann stýrði Detroit Shock til þriggja meistaratitla á sex árum, en hann yfirgaf liðið til að taka næsta skref á ferlinum. Hann hefur þó sennilega áttað sig á því að hann fengi ekki starf sem aðalþjálfari í NBA fyrr en eftir nokkur ár neðar á bekknum.
Nánar hér að neðan…
- Bruce Bowen er annar gamall harðjaxl sem tilkynnti í dag að hann hafi hætt keppni sem atvinnumaður. Bowen er 38 ára og hefur í gegnum árin verið álitin með bestu varnarmönnum deildarinnar og hefur framganga hans á vellinum oft jaðrað við ofbeldi (svipað og hjá Laimbeer á sínum tíma). Aldurinn var þó farinn að segja til sín og eftir viðburðaríkan feril Bowens þar sem hann vann m.a. þrjá meistaratitla með SA Spurs, geta bakverðir deildarinnar andað léttar.
- Þokkapilturinn Stephen Jackson hefur ollið nokkrum styr í herbúðum Golden State Warriors ef eitthvað er að marka sögusagnir, en hann bað víst um skipti „til liðs sem er að keppa um meistaratitil eða NY Knicks“.
Heimskuleg uppátæki og árekstrar við liðsfélaga og liðsstjórnendur hafa sett mark sitt á annars ágætan feril þar sem þáttur hans í verstu óeirðum í sögu NBA í leik Indiana og Detroit munu sennilega skyggja á þá staðreynd að hann m.a. hluti af meistaraliði SA Spurs árið 2003.
- NBA deildin mun bráðlega feta í fótspor NFL deildarinnar og setja takmarkanir á notkun þjálfara og leikmanna á rafrænum samskiptamiðlum. Þannig verður leikmönnum bannað að setja inn skilaboð á t.d. Twitter og Facebook 90 mínútum fyrir leiki og þar til viðtölum eftir leiki er lokið. Kemur þetta í kjölfar mikillar umræðu í fyrra þegar Charlie Villanueva fékk skömm í hattinn hjá þjálfara sínum, Scott Skiles, á meðan Shaquille O´Neal komst upp meða að Twitta eins og enginn væri morgundagurinn.
- Nú berast fregnir af því að LeBron James sé að hallast að því að framlengja samning sinn við Cleveland Cavaliers, en hann er samningslaus næsta sumar og getur varið hvert á land sem er. Lengi hefur verið talið líklegt að hann fari til NY Knicks, en þar sem Cleveland hafa unnið markvisst að því að efla lið sitt undanfarin misseri á meðan Knicks hafa bara verið að losa sig við skranið sem hafði safnast á hillu þeirra, er líklegt að James lítist vel á stefnu Danny Ferrys í uppbyggingu liðsins.
ÞJ