09:15
{mosimage}
(LeBron er vafalítið einn mesti sirkústrúðurinn í NBA í dag, tilþrifameistari mikill)
Los Angeles liðin LA Clippers og LA Lakers mættust í Staples Center í nótt þar sem Clippers fóru með góðan 118-110 sigur af hólmi þrátt fyrir enn eitt stigaregnið hjá Kobe Bryant en hann sallaði niður 50 stigum í nótt. Kobe var auk stiganna 50 með 9 fráköst. Hjá Clippers daðraði Corey Maggette við þrennuna er hann gerði 39 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Maggette stal auk þess 4 boltum í leiknum. Jafnt var með liðunum framan af leik en Clippers sigldu fram úr í fjórða leikhluta en þeir gerðu 32 stig gegn 17 Lakers í þessum síðasta leikhluta. Liðin tvö berjast um sæti í úrslitakeppni Vesturdeildar ásamt þriðja Kalíforníuliðinu, Golden State Warriors.
Þá var einn annar leikur í NBA deildinni í nótt þegar Cleveland Cavaliers lögðu New Jersey Nets 94-76 í Quicken Loans Arena í Cleveland. LeBron James fór fyrir Cleveland með 35 stig og 8 fráköst en hann átti haug af glæsitilþrifum í leiknum og má þar t.d. nefna að þegar 1,3 sekúndur voru eftir af 1. leikhluta átti Cleveland innkast undir sinni eigin körfu og staðan 18-19 Nets í vil. Cleveland fleygðu boltanum fram, rétt yfir miðjan völl, þar sem þeir fundu LeBron James sem stakk varnarmenn Nets af, rauk í átt að körfunni og smellti niður einni langtroðslu en hann stökk lygilega langt frá körfunni. Ærslafull tilþrif og Cavaliers leiddu 20-19 að loknum fyrsta leikhluta. Með sigrinum í nótt tryggðu Cavs sér heimavallarréttinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Hjá Nets var Vince Carter duglegur í stigaskorinu en hann gerði 26 stig og gaf 4 stoðsendingar.
Mynd/Photo: AP