Þær voru ekki fagrar spárnar sem hinir svokölluðu körfuboltaspekingar birtu um gengi Skallagríms fyrir tímabilið. Þessir sömu spekingar held ég að hafi hikstað nokkuð á hafragrautnum sínum undanfarna daga eftir gott gengi Skallagríms í byrjun leiktíðar. 4 stig komin í hús eftir 3 umferðir og næst á dagskrá var lið ÍR sem gerði sér ferð úr höfuðborginni upp í Borgarnes í kvöld. ÍR með 2 stig eftir 3 umferðir. Það var alveg rífandi stemming löngu fyrir leik þegar Breiðhyltingar mættu í Fjósið í Borgarnesi í kvöld. Fjósamenn voru mættir snemma á pallana eftir góða upphitun og allir í góðum gír.
Borgnesingar byrjuðu leikinn mun betur og komust í 7-2 þegar einungis 2 mínútur voru liðnar af leiknum, þá mættu gestirnir loks til leiks og gerðu 11 stig í röð og breyttu stöðunni í 7-13. Leikurinn jafnaðist elítið eftir það eða þar til Carlos nokkur Medlock skoraði 9 stig í röð og kom kúabændum í 24-15. Fyrsti leikhluti var hraður og skemmtilegur og leiddu heimamenn að honum loknum 28-19 og hafði téður Medlock gert 15 stig.
Í öðrum leikhluta róuðust menn all verulega í stigaskori. Sóknarleikur liðanna var ekki uppá marga fiska, enda ekki mikið um fiska í Fjósinu. Varnirnar styrktust og stigaskorið í leikhlutanum var líkara handboltaleik en körfuknattleik. ÍRingar nýttu sér það mjög vel er Quiantance var utan vallar hjá heimamönnum og dældu boltanum inní teiginn. Þeir minnkuðu muninn í 35-32 og raunar var staðan þannig í margar mínútur. Leikmönnum tókst ekki að finna rétta leið ofan í körfuna þrátt fyrir ítarlega leit. Staðan í hálfleik 39-34. Hjá Borgnesingum hafði Medlock gert 15 stig er flautað var til leikhlés, en hinn síkáti Hreggviður Magnússon var með 11 stig fyrir Breiðholtsdrengi.
Hafi menn haldið að liðin myndu hressast eitthvað í síðari hálfleik þá skjátlaðist þeim illilega. Seinni hálfleikur hófst eins og þeim fyrri lauk. Mistök á báða bóga og bændur, hver tapaði boltinn á hendur öðrum og nú var leikurinn helst farinn að líkjast borðtennis en einhverju öðru. Hreggviður reyndist Borgnesingum erfiður, en Skallarnir héldu þó frumkvæðinu og leiddu með 2-6 stigum lengst af. Eða þar til það rann á títtnefndan Carlos Medlock algjör berserkjabragur og hann hóf að raða niður þristum á nýjan leik. Páll Axel vildi líka vera með í þeirri skemmtun og sýndi gamalkunna takta. Þegar flautan gall í lok leikhlutans var munurinn kominn í 16 stig. Þetta virtist fara í skapið á höfuðborgarbúunum í ÍR og til marks um það fékk Sovic óíþróttamannslega villu. Héldu nú margar að árshátíð bændastéttarinnar væri í vændum og Skallar myndu renna þessu þægilega í Fjós í lokin. En svo reyndist nú aldeilis ekki vera. Um miðjan 4. leikhluta höfðu gestirnir saxað forskotið niður í smátt og skorað 17 stig gegn 5 í leikhlutanum. þá tók Pálmi Þór leikhlé hjá Sköllunum og hvatti þá til góðra verka. ÍR ingar minnkuðu muninn í 1 stig áður en Páll Axel hóaði sína menn á fund úti á miðju gólfi og sagði þeim til syndanna. Það bar svo sannarlega árangur því Medlock skoraði í næstu sókn og fékk víti að auki. Hreggviður lét skapið hlaupa með sig í hinar margfrægu gönur og uppskar tæknivillu. Medlock setti niður 3 víti og svo þrist strax á eftir. Staðan alltí einu orðin 79-68 og sterkasta vopn ÍR inga í sókninni, Hreggviður, farinn útaf með 5 villur. Gestirnir brýndu sverð sín og reyndu að jafna, en sverðin voru ekki nógu beitt með sterkasta vopnið utan vallar. Lokatölur 80-71.
Skallagrímur því komnir með 6 stig og eru ósigraðir á heimavelli í vetur. Spilamennska liðanna var ansi köflótt í kvöld. Langir kaflar í leiknum sem einkenndust af miklum mistökum, en svo komu inná milli fínir sprettir til skiptis hjá liðunum tveim. Hinsvegar alveg ljóst að bæði lið geta gert mun betur, en heimamenn taka stigin 2 fegins hendi og halda áfram að koma spekingum í uppnám.
Carlos Medlock var alveg magnaður í liði Skallagríms í kvöld og sallaði niður 34 stigum, (8 af 12 í þriggja). Páll Axel setti niður nokkrar gríðar mikilvægar körfur og gerði alls 18 stig. Hjá gestunum var eins og fyrr segir Hreggviður öflugastur með 25 stig og Eric Palm með 20. Leikstjórnandi ÍRinga D´Andre Jordan Williams átti alls ekki góðan leik og að mati undirritaðs eru líkur á því að hann verði WOWaður fyrr en síðar.
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson