spot_img
HomeFréttirNaumt var það í Njarðvík

Naumt var það í Njarðvík

19:41 

{mosimage}

 

(Jóhann var stigahæstur Njarðvíkinga)

 

 

Þór Þorlákshöfn lét Íslandsmeistara Njarðvíkur hafa vel fyrir sigri sínum í Ljónagryfjunni í dag. Framlengja þurfti leik liðanna í Iceland Express deildinni en það voru Njarðvíkingar sem höfðu að lokum sigur 105-100. Njarðvíkingar eru nú á toppi deildarinnar með 18 stig eins og KR og Snæfell.

 

Fyrri hálfleikurinn gaf lítið fyrir augað en Njarðvíkingar höfðu naumt forskot þegar liðin gengu til hálfleiks. Í síðari hálfleik virtist sem Njarðvíkursigurinn væri öruggur en Þórsarar tóku þá frábæra rispu undir lok leiks.

 

Þegar skammt lifði leiks höfðu Njarðvíkingar 12 stiga forskot en gestirnir úr Þorlákshöfn tóku þá á rás og gerðu 12 stig í röð án þess að Íslandsmeistararnir næðu að svara fyrir sig. Í stöðunni 95-94 hélt Óskar Þórðarson á vítalínuna fyrir Þór en brenndi af báðum skotunum. Brotið var á Jóhanni Ólafssyni í næstu sókn og hitti hann úr einu vítanna fyrir Njarðvík og staðan því 96-94. Það var svo Rob Hodgson, spilandi þjálfari Þórsara, sem gerði jöfnunarkörfuna þegar um ein sekúnda var til leiksloka og gestirnir náðu að knýja fram framlengingu.

 

Eins og svo oft áður þá vill það til að það lið sem gerir fyrstu stig framlengingarinnar fer með sigur af hólmi og á því varð engin undantekning í Ljónagryfjunni í dag. Jóhann Ólafsson setti niður tvö víti og Njarðvík komst í 101-96 og þann mun náði Þór ekki að minnka og lokatölur leiksins því 105-100 eins og áður greinir.

 

Njarðvíkingar eru því komnir aftur á toppinn með 18 stig og deila efsta sætinu með KR og Snæfell. Þórsarar hafa 6 stig í deildinni og eru í 10. sæti.

 

,,Við byrjuðum þennan leik vel og á endanum höfðum við sigur. Við lékum vel til þess að byrja með en svo fór þetta niður á við hjá okkur," sagði Einar Árni Jóhannsson í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn. ,,Við látum okkur þennan leik að kenningu verða en næstu leikir hjá okkur eru stórleikir sem kalla má fjögurra stiga leiki," sagði Einar að lokum en næstu tveir leikir Njarðvíkinga eru gegn ÍR og Skallagrím á nýja árinu.

 

Stigahæstur í liði Njarðvíkinga var Jóhann Árni Ólafsson með 18 stig en Damon Bailey gerði 35 stig í liði Þórs.

 

Frétt og myndir af www.vf.is

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -