U20 ára landslið Íslands tapaði í kvöld naumlega sínum fyrsta leik í Evrópukeppninni sem nú fer fram í Bosníu. Ísland mætti heimamönnum í sínum fyrsta leik og eftir góða byrjun fór aðeins að síga á ógæfuhliðina og heimamenn náðu að hrifsa til sín sigurinn á lokaspretti leiksins, lokatölur 82-78 Bosníumönnum í vil.
Ísland leiddi 42-39 í hálfleik þar sem Haukur Helgi Pálsson var kominn með 12 stig og 3 fráköst og Tómas Heiðar Tómasson 11 stig. Haukur Óskarsson var með 8 stig og Ægir Þór Steinarsson 3 stig, 3 fráköst og 7 stoðsendingar.
Haukur Helgi var funheitur í upphafi síðari hálfleiks og skoraði 10 stig á þremur mínútum en skoraði svo ekki meira í leiknum eftir það. Bosníumenn unnu á með hverri mínútu og náðu loks að landa sigri 82-78. Haukur Óskarsson gerði leikinn spennandi á síðustu sekúndunum með tveimur sterkum þristum en þeir duguðu ekki til í kvöld.
Haukur Helgi Pálsson gerði 22 stig og tók 7 fráköst í íslenska liðinu. Næstur var Tómas Heiðar Tómasson með 18 stig og 2 fráköst. Haukur Óskarsson gerði 14 stig og tók 4 fráköst og Ægir Þór Steinarsson gerði 11 stig, tók 6 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.
Mynd/ Haukur Helgi Pálsson var stigahæstur í íslenska liðinu í kvöld með 22 stig.