Í kvöld tókust Þór Þorlákshöfn og ÍR á í Icelandic Glacial Höllinni í Þorlákshöfn. Liðin voru jöfn að stigum með 4 stig fyrir leikinn og því mátti búast við hörkuleik fyrirfram.
Þess má geta að erlendi leikmaður ÍR er ennþá frá vegna meiðsla og spilaði því ekkert í leiknum.
Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti en staðan var 21-12 þeim í vil eftir fyrsta fjórðung. Í öðrum leikhluta gekk ekkert upp hjá ÍR í sóknarleiknum, sem var mjög stirður, en Þórsarar voru að spila hörkuvörn og voru hálfleikstölur 46-21 fyrir Þór.
Í síðari hálfleik voru ÍR öllu beittari en í þeim fyrri en Þórsarar voru að spila fantavel og eftir nokkuð tíðindalítinn seinni hálfleik fyrir utan tvær tröllatroðslur frá Nat-Vélinni lyktaði leiknum með 107-64 sigri Þórs.
Gaman var að sjá að þjálfarar liðanna leyfðu ungu strákunum að spreyta sig í seinni hálfleik og komust þeir vel frá sínu. Þórsarar geta verið sáttir með leikinn en nokkuð ljóst er að ÍR-ingar ganga ekki sáttir frá borði eftir frammistöðu sína í kvöld.
Texti: Vilhjálmur Atli Björnsson
Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson