Njarðvík mun leika í IceMar-Höllinni næstu þrjú árin, en innan örfárra daga verður nýtt og glæsilegt húsnæði tekið í notkun í Innri-Njarðvík sem mun koma í stað Ljónagryfjunnar fornfrægu.
Bræðurnir Gunnar og Teitur Örlygssynir innsigluðu nýjan samning við Körfuknattleiksdeildina í dag ásamt Halldóri Karlssyni formanni deildarinnar. Fyrirtæki þeirra bræðra, IceMar, verður helsti og fremsti styktaraðili deildarinnar og mun nýja keppnishúsið því heita IceMar-Höllin.
„Gunnar og Teitur hafa ekki bara lagt sín helstu lóð á vogarskálarnar sem leikmenn hjá félaginu því síðustu ár hafa þeir einnig gengið vasklega fram sem stuðningsmenn og styrktaraðilar. Það er frábært að koma í þetta glæsilega hús og vinna áfram með þeim Örlygsbræðrum í IceMar-Höllinni,“ sagði Halldór Karlsson formaður Njarðvíkur.
Sjávarútvegsfyrirtækið IceMar hefur í rúma tvo áratugi starfað á Reykjanesi og selt sjávarafurðir víða um heim. Gunnar er stofnandi IceMar og fyrrum leikmaður Njarðvíkinga. „Það er magnað að sjá nýja völlinn okkar í Njarðvík og vafalaust ólýsanleg stemmning sem mun myndast hér þegar áhorfendur tekur að streyma að á næstunni,“ sagði Gunnar en hann og fyrirtæki hans hafa stutt dyggilega við bakið á íþróttahreyfingunni í Reykjanesbæ til margra ára.
Í dag munu meistaraflokkar Njarðvíkur halda á sínar fyrstu æfingar í IceMar-Höllinni og þá hafa starfsmenn í húsinu lagt nótt við nýtan dag við að gera allt tilbúið. Framundan er fyrsti heimaleikur karlaliðs Njarðvíkur en hann verður þann 12. október þegar Áltanes kemur í heimsókn í annarri umferð Bónus-deildar karla.