Laugardalshöllin þann 13. febrúar kl 16:30 verður vígi fyrir baráttu, undir er bikar kenndur við Powerrade. Þetta árið eru það KR og Þór frá Þorlákshöfn sem munu berjast til síðasta blóðdropa.
Þessi lið hafa mæst tvisvar á þessu tímabili í Dominos deildinni og hefur KR haft sigur í bæði skiptin. Liðin eiga enga sérstaka sögu sín á milli fyrir utan undanúrslitaeinvígið árið 2011 þar sem Þór sópaði KR 3-0. Þrátt fyrir það hefur KR unnið sjö síðustu viðureignir þessara liða en Þór vann síðast í nóvember 2012.
Hér að neðan stiklum við á stóru um þessi tvö lið, skoðum leikmennina og möguleika þeirra.
Þór Þorlákshöfn.
Fyrsta skipti Þórs í bikarúrslitunum er að verða að veruleika. Þorlákshafnarbúar munu fjölmenna og stemmningin verður frábær í liðinu. Þór Þorlákshöfn hefur komið sér fyrir sem sterkt lið í deild þeirra bestu á síðustu árum og hafa komist í úrslitaeinvígið um íslandsmeistaratitillinn árið 2011 en nú á að láta reyna á bikarinn.
Einar Árni Jóhannsson þjálfari hefur gert flotta hluti með liðið í vetur og náð miklu útúr liðinu. Fuglahvíslið segir að Þorsteinn Már Ragnarsson hafi meiðst á æfingu í vikunni og sé tæpur fyrir leikinn, það er skellur fyrir liðið. Að öðru leiti eru allir klárir og verður gaman að sjá hvernig þeir leikmenn sem hafa fengið minni hlutverk í vetur bregðast við því ef Þorsteinn verður ekki með.
Ef Þór mætir að fullum krafti og hafa trú á verkefninu er allt mögulegt. Það komast ekki allir í þessa úrslitahelgi í körfuboltanum og hvað þá oft. Mikilvægt verður fyrir Þór að njóta augnabliksins og geta þannig gengið frá velli með beint bak, hvort sembikar verður í farteskinu eða ekki.
Leið Þórs að úrslitaleiknum:
32. liða úrslit: ÍG 67-121 Þór
16. liða úrslit: Höttur 89-96
8. liða úrslit: Þór 79-74 Haukar
Undanúrslit: Þór 100-79 KEF
Líklegt byrjunarlið Þórs:
Ragnar Ágúst Nathanelsson – 13 stig, 11,6 fráköst 1,2 stoðsendingar, 24,4 framlagsstig
Vance Hall – 24,4 stig, 6,6 fráköst, 4,5 stoðsendingar, 25 framlagsstig
Emil Karel Einarsson – 9,2 stig, 5,1 fráköst, 3,4 stoðsendingar, 12,4 framlagsstig
Halldór Garðar Hermannsson – 6,8 stig, 1,5 fráköst, 1,8 stoðsendingar, 4,3 framlagsstig
Þorsteinn Már Ragnarsson – 8,9 stig, 4,3 fráköst, 1,8 stoðsendingar, 9,3 framlagsstig
Þjálfari: Einar Árni Jóhansson
Styrkleikar
Ekkert lið í Dominos deildinni hefur jafn sterka íslenska miðverði innan sinna vébanda. Ragnar Nat hefur átt frábært tímabil með tvöfalda tvennu að meðaltali í vetur, hann hefur einnig fengið góða aðstoð frá Grétari Erlendssyni eftir áramót. Saman mynda þeir illviðráðanlegt par undir körfunni sem á eftir að gera Michael Craion erfitt fyrir. Allra besti leikmaður Þórs í vetur hefur verið Vance Hall í vetur. Hann hefur átt ævintýralegar frammistöður uppá síðkastið fyrir liðið og getur unnið leiki uppá eigin spýtur.
Helsti styrkleiki Þórs verður stemmningin, hugsanlegt er að öllum sjoppum í Þorlákshöfn verði lokað um miðjan dag á laugardag, það verða allir í Laugardalshöllinni. Græni drekinn hefur vaknað af dvalanum í vetur og á eftir að vera ofboðslega mikilvægir fyrir Þór.
Veikleikar
Þór Þorlákshöfn hefur aldrei komist áður í bikarúrslitin og gæti reynsluleysið sem af því stafar reynst veikleiki. Breiddin í liðinu er ekki eins sterk og hjá andstæðingum þeirra í bikarúrslitunum. Þeir gætu þurft að spila mikið á sömu leikmönnum í leiknum því ef þeir fara djúpt á bekkinn fara gæðin minnkandi sem er dýrt gegn jafn góðu liði og KR.
Mögulegur MVP
Raggi Nat og Vance Hall eru líklegastir til þess að verða valdir bestu leikmenn bikarúrslitaleiksins hjá Þór. Vance Hall hefur bara allt sem þarf til að klára þennan leik ef hann kemst í gang. Fáir í Dominos deildinni hafa jafn breidd vopnabúr, hann getur skotið, hoppað, hlaupið og bara allt. Helsta verkefni Þórs er að loka á Craion og þar kemur Ragnar Nat inn, ef honum tekst að hanga í honum og gera erfitt fyrir á Raggi MVP skilið.
X-Factor
Emil Karel Einarsson er X-factor liðsins. Fer oft lítið fyrir honum á vellinum en hann skilar sínu hlutverki alltaf 110%. Frábær varnarmaður sem getur einnig sett stór skot og dregið sitt lið áfram. Hann er sá leikmaður sem getur tekið frammistöðu Þórs upp um nokkur stig og þess vegna mikilvægur fyrir Þór ef þeir vilja taka bikarinn með til Þorlákshafnar.
KR.
Íslandsmeistararnir eiga harma að hefna eftir bikarúrslitaleikinn fyrir ári síðan þar sem þeir töpuðu eftir ævintýralegar lokamínútur. Ekkert lið hefur unnið bikarinn oftar eða 12 sinnum og síðast árið 2011. KR hafa unnið íslandsmeistaratitilinn tvö ár í röð og fara inní þennan bikarúrslitaleik í efsta sæti Dominos deildarinnar.
Gæði liðsins eru því þekkt stærð og eiga að vera sterkara liðið þegar þessi leikur hefst. Þrír leikmenn liðsins voru í Íslenska landsliðinu á Eurobasket í sumar auk þess sem Brynjar var næsti maður inn í hópinn. Auk þess hafa þeir Craion, Björn, Þóri, Snorra, Darra og auka efnilega stráka. Breiddin er því gríðarleg og er valin maður í hverju rúmi.
Þetta verður síðasti leikur Helga Magnússonar í Laugardalshöllinni og mun hann sjálfsagt leggja allt kapp á að lyfta bikarnum í þetta síðasta skipti sem leikmaður. Til að KR sigri þennan leik þurfa þeir að finna laus á Ragnari Nat, Mike Craion átti lúmskt erfitt með hann fyrr á tímabilinu sem gæti reynst vendipunktur þessa leiks.
KR getur unnið sinn 13 bikarmeistaratitil og unnið sinn fyrsta bikarmeistaratitil í fimm ár en liðið ætlar sé væntanlega að vinna tvennuna í ár.
Leið KR að bikarúrslitaleiknum:
32. liða úrslit: Þór AK. 84-87 KR
16. liða úrslit: Haukar B-139 KR
8. liða úrslit: KR 90-74 Njarðvík
Undanúrslit: Grindavík 70-81 KR
Líklegt byrjunarlið KR:
Pavel Ermolinskij – 9,5 stig, 8,2 fráköst, 6 stoðsendingar, 18,1 framlagsstig
Brynjar Þór Björnsson – 11,8 stig, 2,4 fráköst, 2,6 stoðsendingar, 9,9 framlagsstig.
Ægir Þór Steinarsson – 11,2 stig. 5,7 fráköst, 7,2 stoðsendingar, 17,1 framlagsstig
Michael Craion – 22,7 stig, 11,6 fráköst, 2,6 stoðsendingar, 29,9 framlagsstig
Darri Hilmarsson – 10,8 stig, 4,1 fráköst, 1,9 stoðsendingar, 11,6 framlagsstig
Þjálfari: Finnur Freyr Stefánsson
Styrkleikar
Hraður körfubolti þar sem boltinn gengur hratt á milli manna og frábær varnarleikur er einkenni KR liðsins. Gæði leikmannahópsins kemur þeim einnig ofboðslega langt og valinn maður í hverju rúmi. KR spilar mjög áhrifaríkan körfubolta og er vopnabúr þeirra ansi stórt. Þeir geta sótt að körfunni og opnað fyrir frábærar þriggja stiga skyttur, þeir geta fundið auðveld stökkskot eða keyrt að körfunni í einfalt sniðskot. Einnig er vanfundið það lið sem hefur að geyma jafn mikla reynslu og KR liðið.
KR er lang stoðsendingahæsta liðið í Dominos deildinni sem sýnir hversu góð boltahreyfingin er í liðinu. Ekkert lið í deildinni inniheldur jafn háa körfuboltagreind eins og KR liðið.
Michael Craion er einnig stór styrkleiki hjá KR en hann hefur fyrir ansi löngu sýnt hvers hann er megnugur.
Veikleikar
Sálfræðilegi hluti bikarúrslitanna er klárlega veikleiki hjá KR. KR hefur tapað fimm af síðustu sex bikarúrslitaleikjum sínum. Bæði árin 2009 og 2015 tapaði liðið úrslitaleik þar sem þeir voru sterkara lið og hefðu átt að vinna. Þessi tölfræði gæti verið komin í hausinn á leikmönnum og er helsta verkefni þjálfara fyrir leikinn að motivera liðið rétt.
Mögulegur MVP
Pavel, Craion og Ægir munu allir gera sterkt tilkall til þess að verða valdir bestu leikmenn leiksins hjá KR. Pavel er að nálgast sitt besta form og það er ekki spurning um hvort heldur hvenær hann skellir í þrennu, leiðtogi af guðs náð sem skilar alltaf frábærum frammistöðum. Helsta verkefni Ægis verður að stöðva Vance Hall sem hefur verið allra besti leikmaður Þórs til þessa í deildinni.
X-Factor
Brynjar Þór Björnsson. Leikmaðurinn sem elskar stóru leikina og stóru skotin. Hann dregur liðið með sér, hefur góð áhrif á leikinn og ef KR er komið ofan í holu þá geturu treyst á að Brynjar stigi upp og dragi vagninn. Hann verður mikilvægur í úrslitaleiknum og þar sem leikurinn mun að öllum líkindum vinnast á stórum augnablikum þá er gott að hafa einn Brynjar í sínu liði.
Texti / Ólafur Þór Jónsson – @Olithorj
Myndir / Bára Dröfn