spot_img
HomeFréttirNáðu loks í sigur

Náðu loks í sigur

Valur lagði Hamar/Þór í N1 höllinni í kvöld í 9. umferð Bónus deildar kvenna, 82-59. Liðin tvö eru eftir leikinn jöfn að stigum í neðri hluta deildarinnar, hvort um sig með þrjá sigra í sínum fyrstu níu leikjum.

Fyrir leik

Nokkuð óvænt var Valur í neðsta sæti deildarinnar fyrir leik kvöldsins með aðeins tvo sigra í fyrstu átta umferðunum, en fyrir leik kvöldsins höfðu þær tapað síðustu fjórum leikjum. Nýliðar Hamars/Þórs voru þó ekki langt undan, með einum sigurleik meira og þrjá sigra það sem af var deildarkeppni, en aðeins tapað síðustu þremur leikjum sínum.

Gangur leiks

Það voru heimakonur sem hófu leikinn af miklu krafti og voru snöggar að búa til smá bil á milli sín og gestanna. Hamar/Þór gerðu þó ágætlega að halda í við þær þegar líða tók á fyrsta fjórðunginn, en þegar hann var á enda var munurinn þó 5 stig, 24-19.

Jiselle Thomas hafði farið vel af stað í liði heimakvenna í leiknum, en í öðrum leikhlutanum var komið að Alyssa Cerino að halda þeim á floti sóknarlega. Valur nær áfram að halda í forskot sitt undir lok fyrri hálfleiksins þrátt fyrir góðar tilraunir Hamars/Þórs að jafna leikinn. Munurinn 9 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 42-33.

Stigahæst fyrir Val í fyrri hálfleiknum var Alyssa Cerino með 15 stig á meðan Hana Ivanusa var stigahæst fyrir Hamar/Þór með 9 stig.

Gestirnir virðast aldrei líklegir til þess að vinna sig inn í leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Heimakonur ná mest 17 stiga forystu í þriðja fjórðungnum, en fyrir lokaleikhlutann munar 11 stigum á liðunum, 61-49. Valskonur hefja þann fjórða svo af kraftir og eru snöggar að koma forskoti sínu aftur í tæp 20 stig. Lokamínútur leiksins voru aldrei neitt sérstaklega spennandi þó nýliðarnir hafi reynt hvað þær gátu. Niðurstaðan að lokum nokkuð öruggur sigur heimakvenna, 82-59.

Kjarninn

Bæði lið þurftu svo sannarlega á sigri að halda í kvöld. Bæði við botninn eða að sogast niður í hann síðustu vikurnar, Valur búnar að tapa síðustu fjórum og Hamar/Þór síðustu þremur fyrir leik kvöldsins. Að einhverju leyti má segja að það hafi sést á leik beggja liða í kvöld, þó svo að sjálfsögðu aðeins annað þeirra hafi fengið að fara með sigur af hólmi.

Einn besti leikmaður deildarinnar það sem af er tímabili Abby Beeman hjá Hamar/Þór virtist eiga erfitt með að finna sig í leik kvöldsins. Að einhverju leyti má hrósa þeim gætum sem Valsvörnin var með á henni í kvöld, en það er alveg örugglega ein stærsta ástæða þess að Valur náði að vinna leikinn. Það og fráköst, Hamar/Þór hefði þurft að frákasta betur í kvöld til að sigra.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest í liði Vals í kvöld var Alyssa Cerino með 24 stig, 10 fráköst og Jiselle Thomas bætti við 20 stigum, 7 fráköstum og 9 stoðsendingum.

Fyrir Hamar/Þór var Abby Beeman atkvæðamest með 14 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Henni næst var Hana Ivanusa með 11 stig og 8 fráköst.

Hvað svo?

Næsti leikur Vals í Bónus deildinni er þann 10. desember gegn Þór á Akureyri. Hamar/Þór með leik degi seinna 11. desember heima í Þorlákshöfn gegn Haukum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -